26.2.2004 0:00

Fimmtudagur, 26. 02. 04.

Héldum klukkan 08.30 frá hótel Héraði að Kárahnjúkum í fylgd Helga Jenssonar, fulltrúa sýslumanns á Seyðisfirði, og Vals Magnússonar lögreglufulltrúa við embættið. Vorum komnir um klukkan 10.00 á virkjunarsvæðið, en á leiðinni var gott veður, þótt á köflum væri dimmt vegna skafrennings. Það blés dálitíð á Kárahnjúkum en var bjart yfir og 12 stiga frost.

Hittum forsystumenn Impregilo á fundi, Þeir gerðu okkur grein fyrir framkvæmdunum og fóru yfir ýmis mál. Síðan héldum við niður á stíflusvæðið, þar sem Jöklu hefur verið veitt í hjáleiðslugöng og menn hafa hafist handa við undirstöður stíflunnar miklu.

Snæddum hádegisverð í hinu mikla mötuneytí, sem þjónar starfsmönnum Impregilo og fórum síðan í stöðvar Landsvirkjunar á svæðinu og hittum fulltrúa fyrirtækisins og auk þess trúnaðarmann starfsmanna.

Héldum frá Kárahjúkum um klukkan 13.00 og heimsóttum í bakaleiðinni hjónin að Skriðuklaustri, sem halda staðnum vel í glæsileika sínum og fengum höfðinglegar móttökur.

Tókum vél frá Egilsstöðum klukkan 16.10 og var hún á áætlun.