22.3.2011

Þriðjudagur 22. 03. 11.

Það er greinilega meiri pólitískur þróttur í þingmönnum vinstri-grænna en Samfylkingarinnar. Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason segja skilið við þingflokk vinstri-grænna vegna ofríkis einkum af hálfu Steingríms J. Sigfússonar sem nú hefur þrisvar sinnum dregið flokk sinn til niðurstöðu í Icesave-málinu. Steingrímur J. kemst ekki upp úr Icesave-holunni sem Svavar Gestsson gróf og því miður dró hann að lokum nokkra þingmenn Sjálfstæðisflokksins með sér ofan í hana. Þeir áttuðu sig hins vegar að mikilvægi þess að þjóðin fengi að segja álit sitt á málinu. Með sameiginlegu átaki tekst okkur vonandi með því að segja nei að komast upp úr þessum Svavarspytti.

Þingmenn Samfylkingarinnar láta sig hafa það að styðja áfram við bakið á Jóhönnu Sigurðardóttur þrátt fyrir öll mistök hennar og í raun óvildarverk í garð stjórnarfars og stjórnmálaumræðu. Að fá slíka sendingu í forsætisráðuneytið hefur valdið meiri skaða en komist hefur til skila hjá almenningi. Jóhanna verður ekki oftar í framboði. Með því að styðja við bakið á henni í forsætisráðuneytinu eru þingmenn Samfylkingarinnar að koma sér undan því að velja nýja forystu í flokknum. Þröngir flokkshagsmunir ráða því ferð þeirra en ekki þjóðarhagur.

Í kvöld fórum við í Bastillu-óperuna hér í París og sáum Siegfried eftir Wagner, næst síðustu óperuna í Hring Niflungans. Siegfried, hin mikla hetja sem kann ekki að hræðast, ber merki einfeldnings fram að lokaatriðinu þegar hann bjargar Brynhildi úr loganum. Sýningin hófst klukkan 18.00 og henni lauk 23.20. Listamönnunum var vel tekið en sviðsmynd og búningar voru á skjön við það sem hefðbundið er. Philippe Jordan stjórnaði óperuhljómsveitinni. Günter Krämer er leikstjóri og Jürgen Bäckmann setur á svið. Torsten Kerl er Siegfried, Wolfgang Ablinger-Sperrhacke er Mime, Juha Uusitalo er Óðinn, Katarina Dalayman er Brynhildur, svo að nokkrir söngvarar séu nefndir. Dálítið var púað eftir fyrsta þátt en í lokin var almenn hrifning um 2.700 áheyrenda.