14.3.2011

Mánudagur 14. 03. 11.

Nú hafa birst fréttir um að þeir sem sitja í skilanefnd og slitastjórn Glitnis hafi hver um sig fengið um 70 milljónir króna í árslaun 2010 og þeir hafi ákveðið að hækka laun sín frá og með 1. janúar 2011. Bankamálaráðherrann Árni Páll Árnason telur að þeir sem þiggi þessi laun hafi komið af stað eftirlitslausri eilífðarvél til að skammta sjálfum sér laun.

Þegar visir.is bar launatölurnar undir Árna Pál mátti ætla að þær kæmu honum í opna skjöldu. Hann sagðist þó hafa falið ráðuneytismönnum að semja frumvarp til laga svo að taka mætti á málinu af öðrum en skilanefndinni eða slitastjórninni.

Þessi frétt er aðeins enn ein í safn frétta um furðulegt ráðslag ríkisstjórnarinnar þegar kemur að launamálum á vettvangi hins opinbera.