23.3.2011 21:23

Miðvikudagur 23. 03. 11.

Í mínum huga er ótrúlegt að sjálf Jóhanna Sigurðardóttir skuli standa frammi fyrir úrskurði Kærunefndar jafnréttismála um að hún hafi brotið jafnréttislög við embættisveitingu í forsætisráðuneytinu. Þetta og viðbrögð hennar við úrskurðinum sanna mér endanlega að Jóhanna er mesti gervibaráttumaður í stjórnmálum sem ég hef kynnst. 

Að Hrannar B. Arnarson, aðstoðarmaður Jóhönnu, telji sér fært að afsaka Jóhönnu með því að vísa til álits sem Kærunefnd jafnréttismála gaf þegar ég skipaði Ólaf Börk Þorvaldsson í hæstarétt sýnir best hve veruleikafirring er mögnuð í kringum Jóhönnu. Tal Hrannars og Jóhönnu um mannauðsfræðinginn sem þau skýla sér á bakvið í forherðingu sinni, er ekkert annað en venjulegur samfylkingarspuni. Jóhanna situr uppi með úrskurð. Þegar ég átti í hlut var gefið álit. Ég fór að því og samdi við Hjördísi Björk Hákonardóttur.

Óhjákvæmilegt er fyrir þingflokk Samfylkingarinnar að taka nú af skarið og ýta Jóhönnu og Hrannari B. til hliðar. Hún er ekki hæf til að gegna embætti forsætisráðherra. Liðið sem hún safnar að sér endurspeglar vanmátt hennar. Hún og Jón Gnarr etja kappi saman um að misheppnast gjörsamlega að sinna forystu í þágu almennra borgara landsins. Samfylkingin tryggir Jóni Gnarr einnig valdasess sinn.

Allt stjórnarfar í landinu og þó sérstaklega stjórnarráðið setur niður við að hafa  Jóhönnu við enda ríkisstjórnarborðsins og Hrannar B. sem málsvara. Því fyrr sem Jóhanna hverfur úr forsætisráðuneytinu þeim mun líklegra er að taki að rofa til hjá þjóðinni. Því fyrr sem Jón Gnarr hverfur úr embætti borgarstjóra þeim mun líklegra er að hagur Reykjavíkurborgar vænkist.

Samfylkingin ber ábyrgð á óstjórninni í landinu og höfuðborginni. Að einhverjum detti í hug að Sjálfstæðisflokkurinn taki að sér að framlengja lykiláhrif Samfylkingarinnar á landstjórn eða borgarstjórn sýnir hve pólitískri dómgreind hefur hrakað.

Eftir nokkra daga hér í París þar sem ég hef lesið Le Monde mér til gagns og ánægju, þótt ég sé því ekki alltaf sammála, sé ég enn skýrar hve íslenskri blaðamennsku og fjölmiðlun hefur hrakað. Þegar öllu er á botninn hvolft eru fjölmiðlarnir kannski helsta fórnarlamb útrásarvíkinga og hruns. Menn átta sig kannski ekki á því að um skeið hafði Jóni Ásgeiri Jóhannessyni tekist að sölsa undir sig alla fjölmiðla í landinu utan RÚV en því reyndi hann að stýra með „terreur“ svo að ég vitni til þess tímabils sem ríkti á einu stigi frönsku stjórnarbyltingarinnar.

Meginmáli