16.3.2011

Miðvikudagur 16. 03. 11.

Átta lögfræðingar hafa sent frá sér yfirlýsingu um stuðning sinn við Icesave III. Rök þeirra eru meðal annars þessi:

„Færi nú á sömu leið, það er að EFTA dómstóllinn dæmdi með ESA, flyttist málið yfir á vettvang alþjóðastjórnmála. Afleiðingar gætu hugsanlega orðið þær að Íslandi yrði vísað af evrópska efnahagssvæðinu. Þá blasti við hætta á að lagður yrði tollur á íslenskar vörur í Evrópu sem hafa notið tollfrelsis frá 1971 og er þá hætt við að „mörgum kotbændunum muni þykja verða þröngt fyrir dyrum“ eins og Einar þveræingur hefði orðað það, þar á meðal öllum sem lífsbjörg hafa af fiskveiðum og vinnslu, þegar 30% tollur yrði lagður á þær vörur í Evrópu.“

Ég undrast að lögmenn gerist sekir um svo einfaldan hræðsluáróður. Hvernig í ósköpunum dettur þeim í hug, að Íslandi yrði vísað úr EES, þótt EFTA-dómstóllinn kæmist að þeirri niðurstöðu að Icesave-kröfur Breta og Hollendinga féllu innan EES-samningsins? Leiðir lagaþræta nú á tímum til þess að sá sem tapar máli sé gerður útlægur?Hvaða ákvæði EES-samningsins heimila slíkan brottrekstur?

Ályktunin um að brottrekstur úr EES leiddi sjálfkrafa til tollahækkana af hálfu ESB hlýtur að byggjast á því að fríverslunarsamningur EFTA við ESB frá 1971 sé ekki lengur í gildi. Er það svo? Er um tvöfaldan hræðsluáróður lögfræðinganna að ræða til þess að ýta undir þá skoðun að Íslendingum yrði úthýst ef þeir stæðu á rétti sínum gagnvart löglausum kröfum?

Þar sem ég hef nýlokið við að rita bók um Baugsmálið, vekur athygli mína að meðal þeirra sem rita undir þessa furðulegu yfirlýsingu eru verjendur Baugsmanna sem fluttu hverja rangfærsluna eftir aðra til að véfengja rétt minn til að minnast á Baugsmenn og Baugsmiðla á tíma málaferlanna. Þeir eru því vanir að beita hræðsluáróðri, hvort sem hann skilar árangri eða ekki.