29.3.2011

Þriðjudagur 29. 03. 11.

Á vefsíðu vinstri-grænna Smugunni er 29. mars haft eftir Steingrími J. Sigfússyni, formanni flokksins og fjármálaráðherra að sem herlaust land hafi Ísland „hvorki þekkingu né möguleika á að bera ábyrgð af aðgerðum að þessu tagi“ og vísar hann þar til hernaðaraðgerðanna í Líbýu. Samt situr hann í ríkisstjórn sem ákvað þátttöku Íslands í aðgerðunum á fundi fastaráðs NATO sunnudaginn 27. mars.  Smugan segir, að ráðherrar vinstri-grænna séu ósáttir við stuðning Össurar Skarphéðinssonar við aðgerðirnar.

„Við ræddum málið á ríkisstjórnarfundi og gerðum grein fyrir því að vinstri-grænir væru ekki aðilar að þeim stuðningi enda hefði málið ekki verið rætt í ríkisstjórn og ekkert samráð hafi verið haft við okkur,“ segir Steingrímur J. en það hafi ekki áhrif á setu hans eða annarra ráðherra flokksins í ríkisstjórn eða á samstarfið við Össur og Samfylkinguna, af því að vinstri-grænir séu á móti aðildinni að NATO. Þá hafi hann ekki fengið skýr svör um „hvernig málinu var háttað af fulltrúum Íslands“ í NATO.

Á sama tíma og Steingrímur J. sat á ríkisstjórnarfundi og lýsti þeirri skoðun að Össur og embættismenn hans hefðu ekki þekkingu til að bera ábyrgð á aðgerðunum í Líbýu sat Össur á 50 manna fundi í London og áréttaði mikilvægi þess að fast yrði tekið á málum í Líbýu og með því valdi sem dygði til bjarga almenningi undan Gaddafi.

Þetta orðagjálfur dugar ekki til að leysa Steingrím J. undan pólitískri ábyrgð á afstöðu Íslands á þessu máli innan NATO eða á fundinum í London.

Það var tímabært að í stól forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur settist að nýju maður sem telur sér skylt að halda þannig á málum að orkuveitan sinni frumverkefni sínu, það er að tryggja viðskiptavinum sínum heitt vatn. Bjarni Bjarnason, nýr forstjóri orkuveitunnar, sat fyrir svölum í Kastljósi í kvöld og lét Helga Seljan ekki draga sig inn í umræður um annað en sem hann taldi sér skylt að svara með framtíð fyrirtækisins í huga.