17.3.2011

Fimmtudagur 17. 03. 11.

Í dag klukkan 18.00 var hátíðleg athöfn í franska sendiráðinu í Reykjavík þegar sendiherrann, Caroline Dumas, sæmdi Rut, konu mína, orðunni Chevalier de l'Ordre National du Mérite fyrir framlag hennar við kynningu á franskri tónlist og menningu.

Charles de Gaulle, forseti Frakklands, stofnaði þessa orðu árið 1963 og er hún stigi neðar en æðsta orða Frakklands Légion d'honneur, sem Napoleon stofnaði á sínum tíma. Orðan er veitt Frökkum og útlendingum fyrir einstakt framlag þeirra í þágu Frakklands og franskrar menningar.

Frakklandsforseti veitir ekki aðrar orður en þessar tvær, en innan þeirra eru mismunandi gráður. Aðrar orður eða heiðursmerki Frakka eru veitt af einstökum ráðuneytum.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í kvöld flugbann í Líbýu. Samkvæmt samþykktinni er ekki aðeins heimilt að beita valdi til að stöðva lofthernað heldur allar aðgerðir aðrar en innrás á landi til að stöðva árásir sem geta stofnað lífi venjulegra borgara í hættu. Öryggisráðið komst að þessari niðurstöðu í sama mund og Gaddafi, einræðisherra Líbýu, hótaði árás á borgina Benghazi, sem hefur verið í höndum þeirra sem berjast gegn ofríki einræðisherrans.

Nú má búast við því að lofherjum Bandaríkjanna, Evrópuríkja og fleiri verði beitt til að brjóta ógnarstjórn Gaddafis á bak aftur.