13.3.2011

Sunnudagur 13. 03. 11.

Vefsíðan Eyjan hefur breyst á verri veg eftir að Karl Th. Birgisson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, tók við ritstjórn hennar í umboði Björns Inga Hrafnssonar og þeirra sem eru fjárhagslegir bakhjarlar hans. Eyjan var líflegust og best á meðan Guðmundur Magnússon ritstýrði henni. Frá þeim tíma hefur sigið á ógæfuhliðina og nú er hún málgagn Samfylkingar, ESB-aðildar og stuðnings við Icesave III. Þar er ráðist á bændur fyrir að vilja standa vörð um íslenskan landbúnað og snúið út úr orðum þeirra sem vilja ekki gína við nýjustu útfærslunni á Svavarssamningnum um Icesave.

Ritstjóri síðunnar notar dálkinn Orðið á götunni til að kynna sjónarmið sín. Þar segir 13. mars:

„Björn Bjarnason tjáir sig enn einu sinni um Icesave á vef sínum í gær og ítrekar þar andstöðu sína við samkomulagið við Breta og Hollendinga.

Orðið á götunni er að þessi Björn Bjarnason geti varla verið sá sami og skrifaði m.a. þetta 16. nóvember 2008:

„Þegar samið er, hafa báðir nokkuð til síns máls. Ég hef aldrei hallast að þeirri skoðun, að samningar séu svik, þegar deilur milli ríkja eru leystar. Mér heyrist örla á því sjónarmiði í gagnrýni stjórnarandstöðu á samninginn um IceSave.

Það er siðaðra þjóða háttur að ljúka deilum með samkomulagi – hins vegar má ekki greiða samninga of dýru verði eða afsala sér rétti til að halda lagaskilyrðum til haga og nýta lögfræðilega túlkun til hins ýtrasta.“"

Að nota þessa tilvitnun til að gera afstöðu mína til Icesave III tortryggilega sýnir aðeins hve langt já-menn Icesave telja sig þurfa að ganga í veikri vörn sinni fyrir lélegan málstað.  Ég tel að Icesave III sé keypt alltof dýru verði auk þess sem ég hef eindregið sannfærst um réttmæti þess að Íslendingar nýti sér lögfræðina til hins ýtrasta í þessu máli. Hún er besta vörn smáþjóða þegar leitast er við að kúga þær af hinum stærri.