25.3.2011

Föstudagur 25. 03. 11.

Miðvikudaginn 23. mars var flutt samtal mitt við Harald Briem, sóttvarnalækni, á ÍNN og má sjá þáttinn hér. Við ræddum um varnir gegn hvers kyns vá annarri en náttúruhamförum.

Í hádeginu í dag flutti dr. Laurence C. Smith, höfundur bókarinnar The New North erindi á vegum rannsóknarmiðstöðvarinnar RSE og Varðbergs í ráðstefnusal Þjóðminjasafns Íslands. Salurinn var þéttsetinn og góður rómur gerður að máli framsögumanna sem síðan svaraði spurningum. Hann var meðal annars spurður að því hvernig hann sæi stöðu Íslands í framtíðinni í ljósi rannsókna sinna. Hann svaraði á þann veg að Íslendingar ættu mikil og góð tækifæri - þeir yrðu hins vegar að hugsa stórt. Meta stöðu sína frá víðu sjónarhorni en ekki af hagsmunum einstaks heimshluta, það væri skaðleg þröngsýni.  Hér má til dæmis kynnast sjónarmiðum Smiths.

Guðbjörn Guðbjörnsson, tollvörður, sem sagði skilið við Sjálfstæðisflokkinn síðasta sumar til að stofna nýjan stjórnmálaflokk, bloggar á Eyjunni og tekur sér í dag fyrir hendur að verja Jóhönnu Sigurðardóttur og telur Kærunefnd jafnréttismála hafa vegið ómaklega að henni. Í sömu andrá tekur hann sér fyrir hendur að gagnrýna mig fyrir að hafa skipað þá Gunnlaug Claessen og Jón Steinar Gunnlaugsson í hæstarétt, en hvorugan þeirra skipaði ég í réttinn heldur þá Ólaf Börk Þorvaldsson og Pál Hreinsson. Þegar ég benti Guðbirni á þetta tók hann gamalkunna syrpu út af Ólafi Berki vegna frændsemi hans við Davíð Oddsson án þessa fara rétt með hvernig henni er háttað.

Ólaf Börk skipaði ég í ágúst 2003 og hefur hann staðið sig óaðfinnanlega sem hæstaréttardómari, enda búinn öllum kostum sem prýða mega góðan dómara. Sætir undrun að enn sé amast við því að svo hæfur maður skyldi valinn til setu í hæstarétti. Gagnrýnin snýst um frændsemi Ólafs Barkar við Davíð Oddsson og er eins ómálefnaleg og frekast er kostur. Hún nærist enn á hatrinu sem kveikt var af Baugsmönnum og lögfræðingum þeirra.

Jóhanna Sigurðardóttir fer enn og aftur með rangt mál þegar hún talar um einhverja hæfnisnefnd sér til ráðuneytis við val á skrifstofustjóra, hún hafi farið að ráðum þeirrar nefndar en ég ekki nefndar sem veitt hafi mér álit. Mannauðsráðgjafi leggur nafn sitt við niðurstöðu Jóhönnu, Kærunefnd jafnréttismála úrskurðar gegn áliti ráðgjafans og ákvörðun Jóhönnu. Hæstiréttur átti 2003 að segja álit á hæfi og hæfni umsækjenda um dómaraembætti. Hann taldi Ólaf Börk hæfan en tvo aðra umsækjendur „heppilegri“. Hjördís Hákonardóttir sem kvartaði til Kærunefndar jafnréttismála sem starfaði eftir lögum þess tíma var ekki í hópi hinna „heppilegu“ heldur hafði í raun sömu stöðu og Ólafur Börkur.