8.3.2011 20:54

Þriðjudagur 08. 03. 11.

Enn reynir á ábyrgð ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Að þessu sinni á Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sem fer, fyrir hönd ríkisins, með pólitískt forræði á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum og ber ábyrgð á meðferð þeirra gagnvart alþingi. Þá ber hann ábyrgð á eigandastefnu ríkisins í þessum fyrirtækjum og hefur eftirlit með framkvæmd hennar.  Bankasýsla ríkisins ber ábyrgð á að framfylgja eigandastefnunni gagnvart fjármálaráðherra sem aftur hefur eftirlit með því að stofnunin vinni eftir lögum og eigandastefnu ríkisins.

Elín Jónsdóttir, lögfræðingur, forstjóri Bankasýslu ríkisins sat fyrir svörum í Kastljósi 8. mars vegna gagnrýni á laun bankastjóra Arion banka og Íslandsbanka en bankasýslan á einn fulltrúa í stjórn hvors banka, í Íslandsbanka sat fulltrúinn hjá við ákvörðun um laun bankastjóra en greiddi atkvæði með launakjörunum í Arion banka og hafa þau sætt mestri gagnrýni.

Eftir ríkisstjórnarfund að morgni 8. mars sagði Steingrímur J. að hann ætlaði að kanna hvernig fulltrúar á ábyrgð hans hefðu greitt atkvæði um bankastjóralaunin. Hvað skyldi Steingrímur J. segja nú þegar það hefur verið upplýst?  Ætli hann telji sig ekki þurfa að bíða eftir athugun Elínar sem ætlaði að heyra álit stjórnar bankasýslunnar?

Í reglum um starfshætti  bankasýslunnar  segir að almennar reglur gildi um launakjör í bönkum, þar sem ríkið á ekki meirihluti og þar ákveði stjórn launakjör. Þá segir í þessum reglum:

„Opinber fjármálafyrirtæki skulu tileinka sér hófsemi þegar kemur að launakjörum. Með þessu er átt við að laun stjórnenda eigi að standast samanburð á þeim sviðum sem viðkomandi fyrirtæki starfa á, en séu ekki leiðandi.“

Þarna er greinilega horfið frá fyrirheiti Jóhönnu Sigurðardóttur um að laun í landinu eigi ekki að vera hærri en hennar eigin laun. Helst mátti skilja Elínu Jónsdóttur hjá bankasýslunni á þann veg, þegar hún komst að í Kastljósinu fyrir stjórnandanum, Þóru Arnórsdóttur, að henni þætti laun bankastjóra Arion banka í samræmi við þessa reglu frá Steingrími J. Þá vaknar spurning um hvernig hann, sjálfur fjármálaráðherrann, ætlar að grípa á málinu.

Í starfsreglum bankasýslunnar sem Steingrímur J. setti er tekið fram að stjórnir og bankaráð fjármálafyrirtækja skuli „koma sér upp undirnefndum“, þar á meðal starfskjaranefnd sem geri tillögu um launastefnu. Nú er spurning hvort stjórnarmaður á vegum bankasýslunnar situr í þeirri nefnd en reglurnar segja að auki: „Launafyrirkomulag skal vera gagnsætt og sanngjarnt miðað við almenna framvindu efnahagslífsins og að vel unnin störf stuðli að framgangi.“ Spyrja má, hvort þessa hafi verið gætt.


 

Jóhönnu og Steingrími J. hefur orðið tíðrætt á undanförnum misserum um skaðsemi þess að forverar þeirra hafi ekki sinnt eftirlitshlutverki sínu af nægilegri alúð. Þar með hafi verið grafið undan trausti í garð stjórnvalda og trúverðugleika þeirra. Nú hafa þau einstætt tækifæri til að sanna eigin árvekni og viðbragðsflýti þegar þau telja að stefni í ranga átt hjá fjármálafyrirtækjum þar sem ríkisvaldið á einn stjórnarmann sem það átti ekki í bankastjórnum fyrir hrun.

Hvað gera þau? Jóhanna skrifar athugasemd á fésbókina. Steingrímur J.vísar á bankasýsluna sem vill einfaldlega fá frið fyrir afskiptum hans ef marka má Kastljós-ummæli Elínar Jónsdóttur.