18.3.2011

Föstudagur 18. 03. 11.

Ég lagði bílnum mínum á langtímastæðið við Leifsstöð um 06.30 í morgun. Á leiðinni inn í stöðina var svo mikill bylur að það tók í að ganga á móti honum. Veðrið var allt annað og betra í París, þegar við lentum þar.

Í flugvélinni voru nokkrir kunnir rithöfundar og bókmenntamenn. Þeirra erindi var að sækja franska bókamessu sem er nú um helgina, Salon du livre við Porte de Versailles. Þar eru Les lettre nordiques a l'honneur, eða norrænar bókmenntir í heiðurssæti, eins og segir í kynningu og einnig Spécial Suspense, polar & thirller.

Berglind Ásgeirsdóttir, nýskipaður sendiherra Íslands í Frakklandi, efndi til móttöku í tilefni af þessari bókahátíð en einnig vegna Air d'Islande, íslenskra menningardaga sem nú eru í París í þriðja sinn að frumkvæði Ara Allanssonar, kvikmyndafræðings. Frumkvæði hans vindur upp á sig eins og er eðli góðs framtaks.

Allt var þetta nýnæmi fyrir mig. Áhugi franskra fjölmiðla á íslenskum bókmenntum sést í blöðunum vegna bókamessunnar.