15.3.2011

Þriðjudagur 15. 03. 11.

Þennan dag fyrir fimm árum var hringt í Geir H. Haarde, þáverandi utanríkisráðherra, frá Bandaríkjunum og honum sagt að bandaríska varnarliðið hyrfi af landi brott fyrir lok september 2006.

Sama dag voru Baugsmenn sýknaðir í héraðsdómi af ákæru sem þeim var kynnt 1. júlí 2005.

Ég minnti hér á síðunni á að þennan dag hefði Júlíus Sesar verið myrtur og vitnaði í Shakespeare af því tilefni. Þessi orð drógu dilk á eftir sér í málflutningi Baugsmanna og voru meðal annars kærð til mannréttindadómstólsins í Strassborg. Þá sögu ætla ég ekki að rekja hér enda er bráðlega væntanleg bók frá mér um Baugsmálið þar sem þessu er öllu haldið til haga.

Í bókinni er meðal annars rifjað upp að Arnþrúður Karlsdóttir og Össur Skarphéðinsson komust að þeirri niðurstöðu í samtali á útvarpi Sögu að Geir hefði líklega pantað samtalið frá Bandaríkjunum einmitt þennan dag til að draga athygli frá niðurstöðu héraðsdóms!

Merkilegt er að fjölmiðlar setji ekki fréttir af því að Jóhanna Sigurðardóttir hafi ekki lækkað laun sín sem handhafi forsetavalds og að Ólafur Ragnar hafi ekki sett forsetaembættinu siðareglur í rétt samhengi. Þarna er um að ræða stórveldastríð á milli forseta og forsætisráðherra. Á bakvið fréttirnar eru embættismenn á æðstu stöðum sem endurspegla reiði húsbænda sinna með því að koma neyðarlegum upplýsingum á framfæri.