26.3.2011

Laugardagur 26. 03. 11.

Hæstiréttur ógilti kosningu til stjórnlagaþings. Ég segi skoðun mína á því máli öllu í grein í nýju hefti af tímaritinu Þjóðmálum sem kom út í vikunni.

Ég tel að í samþykkt alþingis um að setja á laggirnar stjórnlagaráð með vísan til þessarar ógiltu kosninga sé farið í kringum niðurstöðu hæstaréttar. Með lögum var honum falið að eiga síðasta orð um hvort rétt hefði verið staðið að vali fólks á stjórnlagaþing, það var ekki gert að mati réttarins. Alþingi hefur haft þá ákvörðun að engu.

Nú kemur einn þeirra sem á rétt til setu í stjórnlagaráði samkvæmt samþykkt alþingis fram og segist ef til vill taka setu í ráðinu ef tillögur þess verði lagðar undir þjóðaratkvæðagreiðslu, áður en þær verða lagðar fyrir alþingi. Má helst skilja orð þess manns, Eiríks Bergmanns Einarssonar frá Bifröst, á þann veg að alþingi verði að samþykkja þetta skilyrði hans, eigi að hann nýta rétt sinn til setu í stjórnlagaráði.

Eitt er að bjóða sig fram til stjórnlagaþings, taka þátt í kosningu sem er ógilt vegna þess hve illa var staðið að henni en annað að telja sig síðan hafa stöðu til að setja alþingi skilyrði. Slíkar kröfur lofa ekki góðu um framhaldið.