12.3.2011

Segjum nei við Icesave í Svavarsfarinu


 

Þegar litið er til baka og á vandræðin sem lausatök ríkisstjórnarinnar á Icesave-málinu í upphafi ferils hennar hafa bakað henni, er óskiljanlegt að stjórnarandstöðuþingmenn leggi ríkisstjórninni lið, þegar hún reynir í þriðja sinn að knýja fram samninga við Breta og Hollendinga

Öll viðleitni Steingríms J. Sigfússonar í Icesave-málinu frá því að hann settist í stól fjármálaráðherra hefur miðað að því að klína Icesave á Sjálfstæðisflokkinn. Steingrímur J. og Svavar Gestsson lögðu af stað með málið í þeim farvegi strax eftir 1. febrúar 2009. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra,  sagðist „stikkfrí“ í málinu. Það væri á forræði Steingríms J.

Hinn 25. febrúar voru þingkosningar á Írlandi. Ríkisstjórnin kolféll vegna ásakana um að hún hefði blekkt írsku þjóðina og ekki ráðið við stjórn efnahags- og fjármála auk þess sem hún hefði farið kolranga leið haustið 2008 þegar hún lýsti skattgreiðendur ábyrgðarmenn allra írskra banka. Hið nána samstarf stjórnmálamanna og bankamanna á Írlandi er jafnvel kennt við spillingu.

Enda Kenny, leiðtogi írsku stjórnarandstöðunnar, er nú orðinn forsætisráðherra. Hann sagðist mundu taka upp baráttu gegn afarkjörum á neyðarláni sem Írar neyddust að taka til bjargar evrunni og eigin bankakerfi. Kenny var varla orðinn forsætisráðherra þegar hann lagði til atlögu í þágu Íra með viðræðum við forystumenn innan ESB. Leiðtogafundi evru-ríkjanna í Brussel 11. mars lauk ekki fyrr en aðfaranótt 12. mars vegna málafylgju Kennys og harðra deilna hans við Nicolas Sarkozy, forseta Frakklands, sem vill neyða Íra til að hækka 12,5% tekjuskatt á fyrirtæki gegn því að rætt verði við þá um lækkun vaxta á neyðarláninu, en þeir eru 5,8% eða 3 stigum hærri en kjörin á lánum sem ESB tekur.

Jóhanna Sigurðadóttir hefur aldrei „tekið slaginn“ í Icesave-málinu á sama hátt og Kenny hefur sótt mál Íra vegna neyðarlánsins.

Steingrímur J.  hefur haft Svavarssamninginn sem fyrirmynd við lausn Icesave-deilunnar. Icesave II lögin voru í hans anda. Í atkvæðagreiðslu 6. mars 2010 hafnaði þjóðin lögunum eftirminnilega (98% þeirra sem tóku afstöðu sögðu nei). Ólafur Ragnar Grímsson neitaði öðru sinni að skrifa undir Icesave-lög Steingríms J. 20. febrúar 2011 og þjóðin greiðir atkvæði um lögin, Icesave III, hinn 9. apríl.

Eftir að Jóhanna og Steingrímur J. höfðu goldið afhroð í atkvæðagreiðslunni 6. mars 2010   höfðu þau enga burði til að kynna málstað þjóðarinnar. Ólafur Ragnar Grímsson var öflugasti málsvari íslenskra stjórnvalda í fjölmiðlum eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna.

Bretar og Hollendingar vildu ekki ræða við Íslendinga nema þeir vissu að breiðari pólitísk samstaða væri á bakvið viðræðurnar en áður. Steingrímur J. fékk stjórnarandstöðuna til að koma að skipun viðræðunefndar undir forystu bandaríska lögfræðingsins Lee Bucheits. Sjálfstæðismenn völdu Lárus L. Blöndal, hrl., sem hafði orðið landskunnur vegna skrifa sinna gegn Icesave I og Icesave II með röksemdum um að engin lögbundin skylda hvíldi á íslenskum skattgreiðendum til að greiða Icesave-skuldina.

Á sínum tíma var ekki gagnrýnt að viðræðunefnd Ísland yrði breytt. Ef menn hefðu áttað sig á því að umboð hinnar nýju nefndar tók í raun mið af Svavarssamningnum, er líklegt að stuðningur við framhaldið hefði verið annar.

Steingrímur J. veitti þá pólitísku leiðsögn að samið skyldi um vexti en ekki annað. Samkvæmt Icesave III lögunum sem alþingi samþykkti með stuðningi níu þingmanna Sjálfstæðisflokksins ábyrgjast Íslendingar 675 milljarða íslenskra króna, þótt látið sé í veðri vaka að aldrei þurfi þeir að greiða meira en nokkra tugi milljarða, annað komi frá þrotabúi Landsbanka Íslands í Bretlandi. Vextir samkvæmt Icesave II voru 5,5% en eru 3% samkvæmt Icesave III. Að samþykkt sé ríkisábyrgð af þessari stærðargráðu er einsdæmi og af þeirri ástæðu einni vekur samningurinn undrun erlendis.

Hið einkennilega gerðist eftir að samninganefndin hafði komist að niðurstöðu sem var í raun ekki annað en aðeins skárra tilbrigði af Svavarssamningnum, − ekki var unnt að gera verri samning,− að Lárus L. Blöndal, hrl., snerist á sveif með samningnum og tók að reka áróður í hans þágu.

Þegar Svavar Gestsson gerði hinn ömurlega samning sinn sagðist hann ekki „nenna“ að sitja lengur yfir málinu. Nú taka ýmsir sem ætla að kjósa hinn 9. apríl undir með Svarari þegar þeir segja, að það verði „bara að klára þetta mál“ þeir „nenni“ ekki að hafa það yfir höfði sér lengur. Hið neikvæða við atkvæðagreiðsluna er að þeir sem segja já skuldbinda hina sem segja nei. Með já-i útiloka menn að fá úr því skorið með dómi hvort þeim beri að greiða eða ekki.

Icesave-málinu lýkur ekki með já-i. Með því að samþykkja Icesave III er tryggt að þjóðin hafi óráðna skuld yfir sér í óljósan tíma. Með nei-i er Icesave beint í nýjan farveg, upp úr farinu sem Steingrímur J. og Svavar völdu. Úr því að Steingrímur J. veitti samninganefnd flokkanna ekki umboð til að fara upp úr Svavarsfarinu er tímabært að þjóðin geri það í kosningunum 9. apríl.