Miðvikudagur 09. 03. 11.
Í dag ræddi ég við Sigurð Kára Kristjánsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, í þætti mínum á ÍNN. Ræddum við um Icesave III sem hann er andvígur, stjórnlagaráð í stað stjórnlagaþings og fleira í tengslum við störf alþingis. Þegar þátturinn átti að hefjast klukkan 20.00 sást ekkert á skjánum og virðist útsending ÍNN hafa rofnað í kvöld að minnsta kosti hjá mér sem horfi á stöðina í gegnum ljósnet Símans. Þegar þetta er ritað um 21.30 en þáttinn átti að sýna fyrst klukkan 20.00 er ég engu nær um hvað hefur gerst.
Samkvæmt upplýsingum sem mér bárust bilaði eitthvað í stjórnstöð stöðvarinnar. Í kvöld átti að sýna fyrsta þáttinn á henni með boðskap já-sinna í Icesave III. Tækin hafa líklega neitað að miðla þeim boðskap út á ljósvakann.
Mér skilst að Ingvi Hrafn hafi þurft að leita með logandi ljósi að einhverjum sem vildi taka að sér að kynna já-málstaðinn. Mér kemur því á óvart að sjá niðurstöðu könnunar hjá RÚV um að 62% ætli að segja já 9. apríl.
Það er greinilega mikið verk að vinna við að sýna þjóðinni hvílík fásinna það er að ætla ð taka að sér að ábyrgjast skuldir einabanka - heildarábyrgðin nálgast 700 milljarða króna, þótt ekki séu nefndar aðrar tölur en 47 milljarðar og kannski 240 milljarðar.
Hin samningsbundna áhætta er mjög matskennd og ágæti samninganna byggist á samanburði við hinn dæmalausa Svavarssamning, versta milliríkjasamning lýðveldissögunnar. Enginn samningur getur hugsanlega orðið verri en hann.