Miðvikudagur 02. 03. 11.
Nefndin sem samdi við Breta og Hollendinga um Icesave III hefur líklega farið í tíma hjá Steingrími J. Sigfússyni sem sagði vorið 2009 að Svavar Gestsson, vinur sinn, væri að ná „glæsilegri niðurstöðu“ þegar hann var tekinn til við að landa versta milliríkjasamningi Íslandssögunnar.
Icesave III samningurinn er vissulega betri en Svavarssamningurinn. Nú er hann sagður svo góður að Íslendingar þurfi ekkert að borga samkvæmt honum. Er ekki unnt að sannfæra Breta og Holllendinga um það? Falla þeir þá ekki frá samningnum fyrir sitt leyti og hirða það sem samningamennirnir segja að standi undir því sem þarf að greiða? Geri þeir það ekki hljóta Íslendingar að sjálfsögðu að segja nei við samningnum og benda Bretum og Hollendingum á greinargerð íslensku samningamannanna um hina „glæsilegu niðurstöðu".
Góðir hlutir gerast stundum hægt. Nú hefur Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, loks látið sannfærast um nauðsyn þess að lögreglan fá forvirkar rannsóknarheimildir og meira að segja Össur Skarphéðinsson tekur undir með honum. Öðru vísi mér brá þegar ég hreyfði nauðsyn þessa í þingsalnum eða á öðrum vettvangi. Þá glumdi gagnrýni ekki aðeins í þinginu heldur einnig hjá álitsgjöfum í bloggheimum. Mér sýnist þeir meira að segja halda sér á mottunni núna.
Ég les á vefsíðu Ögmundar: „ ... lagði áherslu á að jafnframt því sem rannsóknarheimildir lögreglu yrðu víkkaðar þannig að þær næðu til hópa en ekki einvörðungu einstaklinga, yrði eftir sem áður byggt á dómsúrskurðum.“ Af þessum orðum mætti ráða að einhverjum hefði hér á landi dottið í hug að forvirk heimild lögreglu kæmi til sögunnar án atbeina dómstóla. Engum hefur dottið slíkt í hug eins og Ögmundur getur kynnt sér af gögnum sem liggja fyrir um málið frá minni tíð í dómsmálaráðuneytinu.
Fróðlegt verður að sjá, hvernig takmarka á rannsóknarheimild við hópa en ekki einstaklinga.
Líklegt er að Össur Skarphéðinsson fallist nú á að slíkar heimildir verði veittar, þar sem hann gerir sér grein fyrir því að án þeirra verður Ísland ekki aðili að Evrópusambandinu. Ögmundur er að vinna að aðlögun að ESB með tillögu sinni um leið og hún er nauðsynleg til að styrkja öryggisgæslu í landinu.