Þegar Steingrímur J. og Ögmundur fóru í stríð
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, sagði í fyrirspurnartíma á alþingi mánudaginn 28. mars að hann hefði ekki verið upplýstur um hvernig að ákvörðun á vettvangi Atlantshafsbandalagsins (NATO) um að bandalagið tæki að sér stjórn hernaðaraðgerða í Líbýu hefði verið staðið, málið hefði ekki verið rætt í ríkisstjórn.
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, tilkynnti síðdegis sunnudaginn 27. mars, að samkomulag hefði náðst innan NATO fyrr þann sama dag um að bandalagið tæki að sér yfirstjórn aðgerða í samræmi við samþykkt öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um að verja almenna borgara í Líbýu gegn einræðisherranum Gaddafi og hermönnum hans.
Hernaðaraðgerðirnar hófust laugardaginn 19. mars í sama mund og fundi leiðtoga þeirra ríkja sem leggja til herafla lauk í París. Nicolas Sarkosy, forseti Frakklands, kallaði fundinn saman án þess að boða Anders Fogh Rasmussen til hans. Vildu Frakkar halda NATO utan átakanna, þar sem bandalagið hefði ögrandi ímynd meðal arabaþjóða.
Í rúma viku var hlutverk NATO vegna hernaðarátakanna til umræðu. Þjóðverjar sátu hjá við afgreiðslu öryggisráðsins á tillögunni um aðgerðir gegn Gaddafi sem flutt var af Frökkum og Líbönum með stuðningi Breta. Hún hlaut 10 atkvæði en fulltrúar fimm ríkja sátu hjá, þeirra á meðal Kína og Rússlands. Afstaða þýsku ríkisstjórnarinnar sætti þungri gagnrýni heima fyrir, meðal annars frá Klaus Naumann, fyrrverandi hershöfðingja, sem kom hingað til lands í september 2010 og er meðal virtustu herforingja í Evrópu og innan NATO, þar sem hann var um tíma formaður hermálanefndar.
Þá taldi ríkisstjórn Tyrklands ómaklegt að beita vopnum gegn Líbýubúum og dró í efa að NATO ætti að blanda sér í átökin. Tyrkir breyttu um tón og samþykktu að NATO kæmi að stjórn aðgerðanna og tæki við yfirumsjón með þeim úr hendi Bandaríkjamanna.
Þessi ágreiningur hefur verið ræddur fyrir opnum tjöldum. Að því er varðar hernaðaraðgerðirnar sjálfar er hann greinilega úr sögunni innan NATO, þótt ágreiningur kunni að vera um túlkun á orðalagi í heimild öryggisráðsins. Sum ríki telja heimildina leyfa eftirlit í lofthelgi Líbýu og beitingu vopna til að knýja flugher hans til aðgerðaleysis auk þess sem beita megi valdi á hafi úti til að stöðva flutning vopna til Líbýu. Önnur ríki segja augljóst að ekki verði unnt að ná markmiðum samþykktar öryggisráðsins án þess að koma Gaddafi frá völdum. Allir eru sammála um að ekki sé um heimild til landhernaðar að ræða.
Þegar litið er til þess hvernig að ákvörðun á vettvangi NATO hefur verið staðið er augljóst að ríkin sem leggja fram flugvélar og skip til aðgerðanna telja eðlilegt að sameiginleg herstjórn NATO og reglur hennar móti rammann um beitingu heraflans. Bandaríkjastjórn gegndi lykilhlutverki í krafti yfirburða á sviði fjarskipta- og eftirlitstækni en vildi ekki að framkvæmdin yrði án NATO. Þetta sjónarmið naut stuðnings Breta og Ítala, þar sem flestir flugvellir vegna aðgerðanna eru. Þjóðverjar sögðust mundu leggja til aukinn liðsafla í Afganistan, svo að Bandaríkjamenn gætu nýtt flugvélar þaðan til aðgerða í Líbýu. Frakkar létu einfaldlega undan þessum þrýstingi. Tyrkjum hefur ekki verið óljúft að sjá Frakka láta í minni pokann innan NATO, en kalt er milli þeirra og Sarkozys vegna andstöðu forsetans við aðild Tyrkja að ESB.
Í stórpólitískum sviptingum af þessu tagi hefur Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, ákveðið að íslenski fastafulltrúinn í NATO héldi sér til hlés og stæði ekki gegn samstöðu í fastaráði NATO. Þögn er sama og samþykki á þeim vettvangi, því að hvert ríki hefur þar neitunarvald. Hvort þögn íslenska fulltrúans hafi verið kynnt með úrtöluræðu hefur ekki verið upplýst.
Af orðum Steingríms J. Sigfússonar á alþingi 28. mars má ráða að hann hafi talið að afstaða Þjóðverja og Tyrkja ylli því að hann þyrfti ekki sem ráðherra í ríkisstjórn Íslands að axla pólitíska ábyrgð á aðild íslenska ríkisins að hernaðinum í Líbýu. Þá bar hann þetta einnig fyrir sig í ræðu sinni á þingi 28. mars:
„Ríkisstjórnin hefur ekki fjallað um það sérstaklega sem var á vettvangi NATO-fundarins í gær. Og ég hef engar upplýsingar um það hvernig þar var að verkum staðið, hvort að þetta var einhver afgreiðsla eða hvort það var einhver umfjöllun um málið.“
Anders Fogh Rasmussen sagði eftir fund fastafulltrúanna sunnudaginn 27. mars:
„NATO hefur í dag ákveðið að framkvæma samþykkt öryggisráðs SÞ nr.1973 um að vernda almenn íbúahverfi sem sæta hótunum um árás frá ríkisstjórn Gaddafis. Við höfum gefið yfirherstjórn NATO fyrirmæli um að framkvæma tafarlaust þessa samþykkt fastafulltrúanna. NATO mun framkvæma öll ákvæði í samþykkt SÞ, hvorki meira né minna en hana.“
Skýrara getur þetta ekki verið þótt málið sé óljóst í huga Steingríms J. en segir þó að flokkur sinn, vinstri-grænir, styðji ekki neinar aðgerðir undir merkjum NATO í Líbýu.
Á mbl.is er 28. mars tók Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, undir með Steingrími J. og taldi grafið undan „vægi Sameinuðu þjóðanna með því að nýta „loðnar yfirlýsingar“ öryggisráðsins til hernaðaraðgerða“ eins og segir á vefsíðunni. Þá sagði Ögmundur:
„Í fyrstu virðist hinn fjarlægi veruleiki vera óskaplega einfaldur en þegar betur er að gáð er nú myndin flóknari en svo að það sé hægt að lækna öll mein með hernaðarárás. Ég tel það vera mjög vafasamt að hernaðarbandalagið NATO taki sér þetta vald.“
Sér hafi ekki verið kunnugt um að fulltrúi Íslands innan NATO myndi samþykkja þá ákvörðun að bandalagið tæki að sér stjórnun aðgerða í Líbýu.
„Ég hef ekki setið neinn fund þar sem þetta var rætt með þessum hætti," sagði Ögmundur sem bjóst við að málið yrði rætt á fundi ríkisstjórnarinnar að morgni þriðjudags 29. mars.
Utanríkismálanefnd alþingis sem lýtur formennsku Árna Þórs Sigurðssonar, þingmanns vinstri-grænna, kom saman að kvöldi mánudag 28. mars að kröfu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins. Vildi hann að þar yrði rætt um stöðu þessa máls og aðdraganda ákvörðunarinnar um að Ísland tæki þátt í afgreiðslu þess í fastaráði NATO.
Í nóvember 2010 urðu töluverðar umræður um aðdraganda stuðnings íslensku ríkisstjórnarinnar við innrásina í Írak í mars árið 2003. Þá, 5. nóvember 2010, fluttu 30 þingmenn úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokknum tillögu um að kosin skyldi fimm manna rannsóknarnefnd samkvæmt stjórnarskránni „til þess að rannsaka aðdraganda og ástæður þess að þáverandi ríkisstjórn Íslands ákvað að lýsa yfir stuðningi við innrás Bandaríkjanna og Bretlands í Írak 20. mars 2003 án nokkurs samráðs við Alþingi. ... Nefndarstarfinu ljúki með skýrslu sem lögð verði fyrir Alþingi eigi síðar en 1. júní 2011“.
Tillagan er óafgreidd en eins og þarna kemur fram töldu þingmennirnir ástæðu til viðamikillar rannsóknar vegna þess að alþingi hefði ekki verið haft með í ráðum við ákvarðanir um stuðning við innrásina í Írak.
Þeir sem helst gagnrýndu töku ákvarðana vegna Íraks í mars 2003 eru Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson, ráðherrar í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Nú í mars 2011 segjast þeir hvorugur hafa vitað um að Íslands myndi leggjast á sveif með hernaðaraðgerðum í Líbýu á vettvangi NATO. Það hafi ekki einu sinni verið rætt á milli forystumanna stjórnarflokkanna, svo að ekki sé minnst á ríkisstjórnarfund eða fund í utanríkismálanefnd alþingis.
Innrás í Írak var rædd í utanríkismálanefnd alþingis áður til hennar kom. Þeir Steingrímur J. og Ögmundur hörmuðu mjög á þingi 12. mars 2003, að nefndin hefði ekki fengið tóm til að ljúka afgreiðslu á tillögu frá vinstri-grænum um að leita skyldi allra leiða til að afstýra innrás í Írak, þar á meðal að gefa vopnaeftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna nægan tíma til að ljúka störfum sínum. Yrði engu að síður ráðist á Írak lægi ljóst fyrir að Ísland heimilaði ekki afnot af íslenskri aðstöðu eða aðstöðu á íslensku yfirráðasvæði né yrði um neins konar þátttöku að ræða af Íslands hálfu í slíkum aðgerðum. Steingrímur J. sagði meðal annars:
„Við aðstæður af þessu tagi finnst mér að þjóðþingið sjálft eigi að móta grundvallarafstöðuna og hún eigi að sjálfsögðu að vera þessi sem tillagan kveður á um, að ekki komi til greina að Ísland styðji árásarstyrjöld gegn Írak né láti neins konar aðstöðu í té ef til slíks kemur engu að síður í því sambandi.“
Ögmundur Jónasson sagði:
„Við [Steingrímur J.] höfum óskað eftir því að Alþingi fái tækifæri til að taka á lýðræðislegan hátt afstöðu til þessarar tillögu.“
Að Steingrímur J. og Ögmundur sitji sem fastast í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur þegar Ísland gerist umræðulaust aðili að stríðsaðgerðum í Líbýu sýnir enn að ekkert er að marka neitt af því sem þeir sögu utan ríkisstjórnar í von um að orð þeirra fleyttu þeim inn í hana. Það gerðist ekki heldur þurfti bankakerfi Íslands að hrynja svo að þeir kæmust í ráðherrastóla. Þeim verður að sjálfsögðu ekki sleppt vegna stríðsátaka. Þeir félagar geta hins vegar ekki skorast undan ábyrgð sinni, hvað sem líður stefnu vinstri-grænna.