11.3.2011

Föstudagur 11. 03. 11.

Í dag var Thor Vilhjálmsson, rithöfundur, jarðsunginn frá Dómkirkjunni. Séra Hjálmar Jónsson annaðist preststörf við athöfnina en Sigurður Pálsson, rithöfundur, flutti minningarorð. Tónlist var mikil og góð.

Við Thor kynntumst þegar ég gegndi embætti menntamálaráðherra. Hann heimsótti mig oft í ráðuneytið til skrafs og ráðagerða. Þá lagði Thor mikla rækt við listviðburði og menningarleg mannamót og skiptumst við jafnan á kveðjum þegar við hittumst við slík tækifæri. Ég tek undir með Sigurð Pálssyni þegar hann segir að Thor hafi verið hvetjandi og áhugasamur um annarra hag og velferð.

Stjórnmálaskoðanir okkar Thors fóru ekki saman en mörg menningarpólitísk viðhorf áttum við sameiginleg og ég held að fyrst höfum við rætt saman þegar ég lagði mitt lóð á vogarskálarnar til að koma í veg fyrir að Paul Zukofsky sliti tengsl sín við íslenskt tónlistarlíf en Thor áttaði sig vel á því hve mikils virði það var að hafa slíkan snilling reglulega hér með námskeið og Sinfóníuhljómsveit æskunnar.

Á norrænni menningarhátíð sem kennd er við frönsku borgina Caen fylgdist ég með Thor kynna verk sín og íslenskar bókmenntir á frönsku. Féll honum vel að eiga samneyti með erlendum menningar- og menntamönnum sem sýndu honum verðskuldaða virðingu.

Thor hafði sérstakan áhuga á að efla menningartengsl Íslands og Ítalíu og blása lífi í samning landanna um menningarmál. Var ánægjulegt að leggja honum lið í því efni og hlusta á frásagnir hans af fundum með ítölskum menningarmönnum.

Íslenskt menningarlíf verður svipminna við brotthvarf Thors Vilhjálmssonar - blessuð sé minning hans.