Sunnudagur 20. 03. 11.
Hræðsluáróðurinn vegna ásýndar þjóðarinnar á alþjóðavettvangi minnir á stóryrðin sem féllu þegar ákveðið var að hefja hvalveiðar að nýju. Þær áttu að kalla yfir okkur reiði og útskúfun. Þá börðust og berjast enn fjölmenn alþjóðasamtök gegn ákvörðun íslenskra stjórnvalda og fyrirtæki erlendis með íslenskan varning gripu til viðskiptabanns á þennan varning til að verjast mótmælendum.
Ferðamönnum á Íslandi hefur aldrei fjölgað meir en síðan hvalveiðar hófust að nýju. Ekkert af hrakspánum hefur ræst. Engin sambærileg barátta er háð erlendis vegna Icesave og hvalveiðanna. Úrtölumennirnir nú eru allir á Íslandi og flestir í ráðherrastólum eða á alþingi auk hóps lögfræðinga þar sem þá ber hæst sem tóku að sér að verja málstað Baugsmanna á sínum tíma.