27.3.2011

Sunnudagur 27. 03. 11.

Ég velti fyrir mér hvort fleiri en ég hafi glímt við erfiðleika við að tengja fartölvu með Windows XP stýrikerfi við ljósnet Símans. Þetta kemur ítrekað fyrir hjá mér, eftir að tölvan hefur verið í venjulegu ADSL-umhverfi. Á sama tíma finnur fartölva með Windows 7, sem kemur einnig úr ADSL-umhverfi, ljósnetið strax. Nokkrum sinnum hef ég hringt í tæknideild Símans til að fá leiðbeiningar til að tengja XP-stýrikerfið. Ráðin eru mismunandi en alltaf hefur tölvan tengst að lokum.

Eins og lesa má hér hefur NATO tekið að sér yfirstjórn allra hernaðaraðgerða í Líbýu í samræmi við umboð öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Fastafulltrúar NATO-ríkjanna 28 samþykktu þetta á fundi í Brussel í dag. Fulltrúi Íslands var í þeim hópi og hefur að sjálfsögðu ekki veitt samþykki sitt nema samkvæmt fyrirmælum frá Össuri Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra.

Össur hefur haft stór orð um að ekki hafi verið staðið nógu skipulega að töku ákvörðunar um aðild Íslands að stríðinu í Írak, skort hafi samráð og opna umræðu. Þá séu ekki heldur nein haldgóð gögn í utanríkisráðuneytinu um ferli ákvörðunarinnar.

Össur hlýtur að gera þingi og þjóð grein fyrir aðdraganda þeirrar ákvörðunar sem tekin var í höfuðstöðvum NATO í Brussel í dag með samþykki Íslands. Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar alþingis og þingmaður vinstri-grænna, hefur að sjálfsögðu verið hafður með í ráðum og leitað umboðs frá flokksformanni sínum Steingrími J. Sigfússyni.