18.9.2012 21:25

Þriðjudagur 18. 09. 12

Einn eftirminnilegasti erlendi stjórnmálamaður sem ég hef hitt er Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, sem fagnar sjötugs afmæli í dag. Hann var innanríkisráðherra þegar ég hitti hann í skrifstofu hans í Berlín 26. ágúst 2008 og hann bauð mér síðan í hádegisverð á Hilton-hótelinu við Gendarmemarkt eins og sjá má hér.

Á fundi okkar var enn staðfest í mínum huga að skynsamlegast væri fyrir okkur Íslendinga að nálgast ríkisstjórnir ESB-ríkjanna sem EES- og Schengenríki og leita eftir tvíhliða úrlausn á málum sem okkur væru brýn í stað þess að sækja um aðild að ESB. Ég tel til dæmis að óska eigi eftir viðræðum við ESB um tvíhliða gjaldmiðlasamstarf í stað þess að fara löngu leiðina inn í evru-samstarfið sem ESB-ríki, vilji menn á annað borð tengjast evrunni á einhvern hátt. Hvers vegna skyldi EES-ríki ekki vera gjaldgengt í ERM II eins og það getur átt aðild að Prümsamningnum sem við Schäuble ræddum í ágúst 2008?

Í greinum þýskra blaða um Schäuble í dag er rætt um hann sem fremsta og reynslumesta stjórnmálamann Þýskalands um þessar mundir en honum hafi hvorki tekist að verða kanslari né forseti Þýskalands eins og hann hafi viljað. Skýringin sé að hann hafi verið of nátengdur Helmut Kohl Þýskalandskanslara í blíðu og stríðu, hann hafi risið og fallið með Kohl. Þeir hafa nú ekkert samband og Kohl afþakkaði án skýringa boð í 70 ára opinbera afmælisveislu Schäubles sem flokkur þeirra CDU heldur honum.

Árið 1990 varð Schäuble fyrir skotárás geðtruflaðs manns á kosningafundi. Lífi hans var bjargað en síðan hefur hann verið í hjólastól. Angela Merkel vildi ekki að hann yrði forseti Þýskalands árið 2004 en það er talið til marks um hina miklu sjálfstjórn hans að hann skuli sitja í ríkisstjórn hennar og leiða evru-ríkin sem fjármálaráðherra.

Mesta afrek hans á stjórnmálasviðinu er að hafa gert samninginn um sameiningu Austur- og Vestur-Þýskalands og að hafa leitt hina sundruðu þjóð saman á þann friðsamlega hátt sem gert var.

Í Der Spiegel segir að Schäuble geti verið einstaklega hrífandi og vingjarnlegur sýni hann þá hlið á sér, þannig kom hann mér fyrir sjónir í eftirminnilegu samtali okkar.   Hins vegar er sagt að hann fari svo sparlega með tilfinningar sínar að enginn viti í raun hvað honum finnist um menn og málefni,  kannski þess vegna höfði hann enn svo sterkt til margra þótt hann hafi setið á þingi í um 40 ár.