1.9.2012 21:21

Laugardagur 01. 09. 12

Furðufréttamennska ríkisútvarpsins birtist enn klukkan 18.00 í dag þegar nafn mitt var að ósekju dregið í kynningu á hinu helsta í fréttunum í frásögn af ágreiningi meðal VG-fólks eftir að Ögmundur Jónasson féll fyrir öxi kærunefndar jafnréttismála. Um er að ræða átta ára gamalt mál sem ég leysti með samkomulagi við Hjördísi Hákonardóttur, síðar hæstaréttardómara. Ég sagði jafnréttislögin barns síns tíma ef kærunefndin teldi sig þurfa að komast að þeirri niðurstöðu í áliti sínu sem þá lá fyrir. Þessi orð mín reyndust rétt því að jafnréttislögunum var breytt og þar á meðal ákvæðum um kærunefndina og valdsvið hennar.

Á vefsíðunni ruv.is segir 1. september:

„Viðbrögð Ögmundar Jónassonar við úrskurði um að hann hafi brotið jafnréttislög minna meira á viðbrögð Björns Bjarnasonar á sínum tíma, en ráðherra í femínískri ríkisstjórn, segir Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri-grænna.“

Ég veit ekki hvernig Sóley rökstyður mál sitt. Hún flutti það í þættinum Í vikulokin  sem er einn þáttanna sem haldið er úti til að ræða menn og málefni. Eitt er að það sé gert og fólk valið til að kynna ákveðin sjónarmið annað að sá áróður sé síðan notaður sem fréttaefni – í þessu tilviki greinilega til að koma höggi á mig að ósekju. Fréttastofa ríkisútvarpsins telur sig líklega eiga harma að hefna gagnvart mér og hikar ekki við að misbeita valdi sínu til þess.

Ég segi frá því í bók minni Rosabaugi yfir Íslandi hvaða hlutverki fréttastofa ríkisútvarpsins gegndi í sambandi við spunann vegna orða minna í tilefni af úrskurði kærunefndarinnar í apríl 2004. Þá fluttu þau Jóhanna Sigurðardóttir og Ögmundur Jónasson ræður sem falla dauðar núna þegar kærunefndin fellir bindandi úrskurð um embættisveitingar þeirra. Fréttastofa ríkisútvarpsins hefur ekki fyrir að birta þau ummæli heldur hundeltist við mig á sama hátt og hún gerði fyrir átta árum. Það breytist ekkert þar á bæ enda sama fólkið við stjórnvölinn.

Sama dag og fréttastofa ríkisútvarpsins gerir frétt um áróðursummæli Sóleyjar Tómasdóttur birtist grein eftir Þorstein Pálsson, einn af ESB-viðræðunefndarmönnum Íslands, sem segir viðræðurnar sigldar í strand fari Ögmundur Jónasson með rétt mál um bókanir í ríkisstjórninni. Fréttastofan sér ekki ástæðu til að segja frá þessu í fréttum eða kanna málið enda ekki í samræmi við ESB-þjónkun hennar.