9.9.2012 22:20

Sunnudagur 09. 09. 12

Sáum fimmta og lokaþátt myndarinnar Draumurinn um veginn eftir Erlend Sveinsson í dag. Í fimm myndum sýnir hann pílagrímagöngu Thors Vilhjálmssonar rithöfundar 750 km leið eftir Jakobsveginum vorið 2005. Myndin er vel gerð í alla staði, hljóð og mynd, persóna og allt fas Thors fellur einstaklega vel inn í þennan ramma sem er skreyttur tilvitunum í ritverk hans. Myndaflokkurinn er afrek hvernig sem á hann er litið og dæmi um einstætt þrek og úthald Thors og Erlendar.

Fréttir ríkisfréttastofunnar um skort á konum í forystusveit sjálfstæðismanna hafa haldið áfram í dag. Skýringin á furðufréttunum er einföld. Áhuginn á stöðu kvenna innan Sjálfstæðisflokksins dregur athygli frá skipbroti jafnréttisstefnu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur hvort heldur litið er til launa- eða ráðningarmála. Þetta skipbrot sýnir að hástemmdar stjórnmálayfirlýsingar jafnréttisráðherrans Jóhönnu og kvenfrelsisráðherrans Ögmundar reynast orðin tóm. Við þessar aðstæður ákveður ríkisfréttastofan að ræða skort á konum í forystusveit Sjálfstæðisflokksins til að árétta mikilvægi jafnréttismála!