27.9.2012

Sjálftaka í skjóli Jóhönnu


Hinn 26. ágúst 2011 skýrði skrifstofa alþingis frá því að gengið hefði verið frá skipun rannsóknarnefndar alþingis til að rannsaka aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna. Í nefndina vor skipuð  Sigríður Ingvarsdóttir, héraðsdómari í Reykjavík, formaður, Tinna Finnbogadóttir hagfræðingur og Bjarni Frímann Karlsson, lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

Tinna var í maí 2011 ráðin til nýstofnaðs endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtækis, BDO ehf. til að gegna forstöðu fyrirtækjaráðgjafar. BDO er hluti alþjóðlegrar fyrirtækjakeðju. Eigendur og starfmenn BDO hér á landi störfuðu áður hjá PwC. Bjarni Frímann gekk hart fram í gagnrýni á endurskoðendur eftir að Rannsóknarnefnd alþingis birti skýrslu sína í apríl 2010.

Nefndin átti að skila niðurstöðu rannsóknar sinnar sumarið 2012 en fékk lengri frest til þess. Hinn 5. september óskaði Sigríður Ingvarsdóttir eftir lausn frá störfum sem nefndarformaður  og sneri að nýju til dómarastarfa. Sigríður sagði við fjölmiðla að Tinna og Bjarni Frímann hefðu myndað meirihluta gegn sér þegar upp kom ágreiningur um starfsemi nefndarinnar.

Ekkert hefur verið sagt frá efni ágreiningsins. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti alþingis, féllst hinn 20. september  á ósk Sigríðar og greindi síðan forsætisnefnd alþingis frá því miðvikudaginn 26. september að hún hefði skipað Hrannar Má S. Hafberg, lögfræðing, formann nefndarinnar.

Í fréttatilkynningu alþingis segir:

„Hrannar lauk meistaraprófi í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands í febrúar 2008. Auk þess að hafa verið settur héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur og starfað við dómstóla í fjögur ár hefur Hrannar sinnt kennslu við lagadeild Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Hrannar hefur að undanförnu starfað fyrir rannsóknarnefnd um sparisjóðina.“

Engar umræður hafa orðið um þessi skipti á formanni rannsóknarnefndarinnar um sparisjóðina í sal alþingis. Þar hafa þingmenn hins vegar haft uppi stór orð um rannsókn á vegum ríkisendurskoðunar á tölvukerfi ríkisins og krafist upplýsinga um það sem þeir nefna „leyniskýrslu“ ríkisendurskoðunar þótt Björn Valur Gíslason(VG), formaður fjárlaganefndar alþingis, hafi skýrsluna undir höndum.

Rannsóknarnefnd vegna erfiðleika og falls sparisjóðanna fjallar um mál sem hefur lengst verið á forræði Steingríms J. Sigfússonar sem fjármálaráðherra. Hann stóð að umdeildum ráðstöfunum á opinberu fé til bjargar sparisjóðum og situr nú sem bankamálaráðherra.

Er vissulega umhugsunbarvert að helsti handlangari Steingríms J., Björn Valur Gíslason, skuli ganga fram af offorsi í umræðum um hálfkaraða rannsóknarskýrslu ríkisendurskoðunar á máli sem á rætur að rekja til nýtingar á opinberu fé í samræmi við heimildir alþingis en hinn sami Björn Valur þegi þunnu hljóði þegar gerð er bylting gegn héraðsdómara í nefnd á vegum alþingis og starfsmaður nefndarinnar síðan gerður að formanni hennar.

Er hugsanlegt að Björn Valur og félagar hafi notað smjörklípu til að draga athygli frá því sem er á döfinni í nefndinni um rannsóknir á afskiptum Steingríms J. af sparisjóðunum? Á meðan rannsóknarmenn Kastljóss gæða sér á smjörklípunni af svo mikilli ákefð að þeir sjást ekki fyrir er héraðsdómari hrakinn úr formennsku rannsóknarnefndar  á verkum Steingríms J. án þess að meiri athygli veki en ósköp venjuleg formannsskipti í nefnd. Meira liggur undir í þessari rannsóknarnefnd sparisjóðanna en þær lágstemmdu fréttir gefa til kynna. Þingmenn ættu að krefjast skýrslu um málið, allt gerist þetta á ábyrgð þeirra og undir yfirstjórn forseta alþingis.

Laun slitastjórnarmanna

Á dögunum var efnt til málþings í Háskólanum í Reykjavík í tilefni af 10 ára afmæli lagakennsku þar. Ég tók þátt í pallborðsumræðum og var meðal annars rætt um siðferði og spillingu meðal lögfræðinga.

Þegar ég svaraði spurningu um það efni sagðist ég ekki hafa velt málinu mikið fyrir mér. Ég hef aldrei starfað sem lögfræðingur, ef svo má orða það, þrátt fyrir lögfræðimenntun mína. Ég hef því aldrei staðið fram fyrir siðferðilegum álitaefnum sem hljóta að rísa í störfum lögmanna.

Ég lýsti hins vegar þeirri skoðun að almennt séð teldi ég lögmenn haldna leyndarhyggju um störf sín. Þeim þætti meiru skipta að rætt væri opinskátt um málefni annarra en sjálfra sín. Taldi ég að þessi leyndarhyggja gæti stuðlað að grunsemdum um spillingu meðal lögfræðinga, með þögn sinni væru þeir að hylma yfir eitthvað sem ekki þyldi dagsins ljós. Ég nefndi í því sambandi störf slitastjórna og skort á upplýsingum um greiðslur til þeirra sem hefði ýtt undir hvers kyns sögusagnir.

Hæstaréttarlögmaður í pallborðinu tók réttilega fram að lögmenn væru bundnir þagnarskyldu að lögum. Það er rétt og einnig hitt að bankaleynd leggur mönnum skyldur á herðar. Ég hef hins vegar verið þeirrar skoðunar allt frá því að bankarnir fóru á hliðina haustið 2008 að huga ætti að breytingum á reglum um bankaleynd og auðvitað hefði átt að búa þannig um hnúta að gegnsæi væri um öll störf þeirra sem kæmu að uppgjöri vegna bankanna og eignarhaldi á þeim eftir hrunið. Því miður hefur ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ekki haft neinn áhuga á að miðla upplýsingum um þessi mál frekar en önnur. Leyndarhyggja hefur aukist mjög undanfarið í hinni opinberu stjórnsýslu, meira að segja skýtur Steingrímur J. Sigfússon sér undan að upplýsa hverjir sækja um embætti í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu.

Þegar Steingrímur J. var spurður um háar greiðslur til slitastjórnarmanna fyrir fram Stjórnarráðshúsið á dögunum talaði hann eins og hann væri hver annar áhorfandi að þeim ósköpum sem hann lýsti. Jóhanna Sigurðardóttir lét hneykslunarorð falla á alþingi fimmtudaginn 27. september og talaði á þann veg að ríkisstjórnin væri alveg valda- og ráðalaus. Nú væri að vísu ætlunin að fara þess á leit við seðlabankann (er hann ekki sjálfstæður lögum samkvæmt?) að hann krefðist einhvers fyrir ríkisstjórnina af því að hann væri kröfuhafi.

Einfalda spurningin er þessi: Af hverju hefur ekki verið flutt frumvarp á alþingi um afnám leyndarinnar yfir greiðslum til skilanefnda og slitastjórna bankanna? Hvers vegna í ósköpunum hefur ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur setið hjá sem aðgerðarlaus áhorfandi sé það rétt sem Jóhanna sagði á þingi að greiðslur til þessara nefnda hefðu oft verið ræddar í ríkisstjórn?

Jóhanna segir ósatt

Óli Björn Kárason ræðir ofurgreiðslur til slitastjórna á vefsíðu sinni 27. september og segir í tilefni af orðum Jóhönnu Sigurðardóttur á alþingi:

„Hér fer Jóhanna eins og köttur í kringum heitan graut enda málið óþægilegt, svo ekki sé meira sagt, fyrir hina norrænu velferðarstjórn sem segist stefna að auknum jöfnuði og hækkar síðan mánaðarlaun forstjóra um nær tvöföld byrjunarlaun hjúkrunarfræðinga. Fyrir Jóhönnu er málið sérstaklega vandræðalegt. Á árum áður fór hún mikinn og gagnrýndi sem óbreyttur þingmaður stjórnvöld og sjálftökuliðið svokallaða. Svo virðist sem „sjálftökuliðið” hafi aldrei haft það betra en á vakt Jóhönnu Sigurðardóttur sem talar nú eins og hún beri enga ábyrgð – aðra en þá að hneykslast.“

Óli Björn segir að það sé rangt hjá Jóhönnu  að stjórnvöld hafi ekkert vald í málefnum skilanefnda. Fjármálaeftirlitið [FME] sé hluti af stjórnvaldinu og í lögum nr. 78/2011 sé rætt um eftirlitsskyldu þess  með rekstri fjármálafyrirtækis sem er stýrt af slitastjórn, eftirlitið á að eigin frumkvæði eða á grundvelli ábendinga kröfuhafa meðal annars að hafa eftirlit með viðskiptaháttum slitastjórna.

„Neitun á kröfu Fjármálaeftirlitsins um afhendingu gagna getur varðað brottrekstri úr slitastjórn,“ segir meðal annars í lögunum.  Þá er fjármálaeftirlitinu heimilt að beina kröfu til héraðsdóms um að víkja skuli slitastjórn frá í heild eða að hluta. Ber að taka tafarlaust afstöðu til slíkrar kröfu.

Þessi ákvæði sýna svart á hvítu að hvað sem líður ákvæðum um bankaleynd hefur fjármálaeftirlitið ríkar skyldur til eftirlits með öllum störfum slitastjórna, þar hljóta launamál að skipta miklu ef menn telja nauðsynlegt að sporna gegn sjálftöku. Það er fráleitt að segja eins og Steingrímur J. að hafa beri í huga að kröfuhafar beri kostnað af slitastjórnum en ekki skattgreiðendur. Sagan sýnir að allt lendir þetta á skattgreiðendum á lokum. Steingrímur J. skipar stjórn fjármálaeftirlitisins. Forstjóra þess var vikið frá fyrir nokkrum mánuðum vegna mála sem varðaði hann. Hvað um mál sem varða lagaskyldur eftirlitsins? Hafi ríkisstjórnin rætt laun slitatstjórnanna oft á fundum sínum, lét hún engan skoða lögin sem þær varða?

Jón Magnússon hæstaréttarlögmaður segir á vefsíðu sinni;

 „Jóhanna Sigurðardóttir og Kúbu-Gylfi Magnússon fordæmdu tímataxta skilanefnda í ársbyrjun 2009. Þóttust þau ætla að koma böndum á ofurlaun þeirra. Árangur Gylfa og Jóhönnu í þessu var ekki betri en í öðru sem þau hafa tekið sér fyrir hendur. Laun í skilanefndum og slitastjórnum lækkuðu ekki undir handleiðslu Gylfa og Jóhönnu. Þvert á móti hefur komið fram í fréttum að þau hafi fljótt hækkað um 120%. […]

Nú eru það Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon sem eru verndarar sjálftökuliðsins. Undan þeirri ábyrgð getur Steingrímur J. ekki vikist þó hann fari ítrekað með fleipur um málið í fjölmiðlum af alkunnum orðhengilshætti. Annað hvort veit Steingrímur J ekki betur, en það sýnir þá vanhæfni hans, eða þá að hann stendur meðvitað með sjálftökuliðinu.”