Föstudagur 07. 09. 12
Var í dag á Hrafnaþingi á ÍNN með Ingva Hrafni og Óla Birni Kárasyni og ræddum við um Sjálfstæðisflokkinn og forsetakosningarnar í Bandaríkjunum að loknum flokksþingum þar. Þátturinn verður næst sýndur á miðnætti og síðan á tveggja tíma fresti fram til klukkan 18.00 á morgun.
Í dag sá ég við Perluna að einhver hafði farið með sleggju eða járnkarl og brotið næstum allar glerhlífarnar yfir ljóskösturum við tankana. Ég hef oft séð skemmdarverk unnin á þessum hlífum en aldrei jafnmargar þeirra eyðilagðar eins og að þessu sinni. Fróðlegt væri að vita hvað kostaði að setja nýjar hlífar og enn forvitnilegra að fá upplýsingar um þá skemmdarvarga sem þarna hafa verið að verki. Ástæða er til að velta fyrir sér hvers vegna ekki eru öryggismyndavélar þarna við tankana. Þó er enn undarlegra að hvergi utan dyra skuli vera ruslatunna. Þarna koma hundruð ef ekki þúsundir manna á hverjum degi þegar ferðamenn eru flestir.