Mánudagur 03. 09. 12
Fréttastofa ríkisútvarpsins heldur áfram að sauma að Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra vegna niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála. Í dag var rætt við Björn Val Gíslason, þingflokksformann VG, sem sagði að tapaði Ögmundur, flokksbróðir hans, jafnréttismáli fyrir dómstóli væru dagar hans sem ráðherra taldir. Þetta segir formaður þingflokks sem styður Jóhönnu Sigurðardóttur sem forsætisráðherra þrátt fyrir að hún hafi verið dæmd fyrir jafnréttisbrot og einnig fyrir að móðga umsækjandann sem hún hafnaði á þann veg að hún varð að greiða henni miskabætur.
Ég hitti mann á förnum vegi í dag sem spurði: Fyrir hverju ætla vinstri-grænir að berjast í komandi kosningum? Hvaða málstað hafa þeir ekki svikið?
Þetta var áður en við blasti að Björn Valur er á eftir Ögmundi en ekki Jóhönnu.
Fréttastofa ríkisútvarpsins sannaði enn í samtalinu við Björn Val hve annt henni er um Jóhönnu. Fréttamaðurinn spurði ekki hvað þingflokksformaðurinn segði um dæmda forsætisráðherrann. Hvers vegna ekki? Það var þó mikli meiri fréttapunktur en gamalkunnar hótanir Björns Vals í garð Ögmundar. Þorir fréttastofan ekki að heyra svarið?
Ögmundur var í Kastljósi hann las grein í jafnréttislögunum og sagðist ekkert gefa fyrir hana. Hvers vegna snúast ekki umræðurnar um hvort jafnréttislögin og allt í kringum þau eigi í raun rétt á sér? Þolir pólitíski rétttrúnaðurinn ekki slíkar umræður? Ögmundur verður ekki skilinn á annan veg en þann að hann gefi ekkert fyrir lögin.