Miðvikudagur 12. 09. 12
Í kvöld ræði ég á ÍNN við Jón Helga Guðmundsson, forstjóra Norvíkur, sem rekur Byko og Kaupás auk margra fleiri fyrirtækja hér á landi og erlendis. Við ræðum umsvif fyrirtækjanna og hvernig staðan er við núverandi aðstæður.
Fyrirtæki Jóns Helga hafa haldið sínu striki þrátt fyrir fjármálahrun og kreppu. Samkeppnisaðstæður breytast stöðugt og gjaldeyrishöftin valda því nú að erlendir aðilar geta skotið sér inn á smásölumarkað á sérstöku gengi sem hannað er af Seðlabanka Íslands.
Norvík hefur hafnaraðstöðu í mynni Thames og tók nýlega að sér stórverkefni í skipaflutningum sem tengist gerð Crossrail í London, það er nýju lestarkerfi neðanjarðar. Skip á vegum Norvíkur flytja uppgröftinn á Thames til þess staðar þar sem hann er notaður til að skapa friðað svæði fyrir fugla.
Þátturinn verður sýndur fyrst klukkan 20.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.