24.9.2012 22:20

Mánudagur 24. 09. 12

Anna Funder, höfundur bókarinnar Stasiland, flutti fyrirlestur á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í hádeginu í dag. Hún gerði grein fyrir efnisöflun sinni og sagði álit á starfsaðferðum Stasi, austur-þýsku öryggislögreglunnar. Það koma fram hjá henni að Stasi-böndin hafi ekki rofnað meðal þeirra sem gengu þjónustunni á hönd þótt þeir sinni öðrum störfum núna en að njósna um vinnufélaga eða eigin fjölskyldu.

Stasiland er mögnuð bók og þar sem lýst er hinu ógnvekjandi ástandi sem ríkti í A-Þýskalandi undir stjórn kommúnista. Það er merkilegt að jafnaðarmenn á borð Stefán Ólafsson prófessor hafa hvorki þrek né þolinmæði til að hlusta á þá segja skoðanir sínar sem lýsa stjórnarháttum sósíalista og kommúnista.

Fréttastofa ríkisútvarpsins segir „ekki gott að átta sig á“ stöðu atvinnuleysisins hér á landi þótti hagstofan og forseti ASÍ segi að það aukist en minnki ekki. Hvers vegna á fréttastofan erfitt með að fóta sig? Af því að Steingrímur J. Sigfússon, atvinnu- og nýsköpunarráðherra, neitar að viðurkenna staðreyndir í þessu máli eins og öðrum sem sýna og sanna hve honum eru mislagðar hendur.

Ráðherrar og spunaliðar þeirra hafa dregið upp falska mynd af stöðunni í atvinnumálum undanfarna mánuði. Þeir hafa komist upp með þetta af því að fréttastofa ríkisins leikur undir með þeim. Þegar hagstofan og forseti ASÍ sem ekki hefur verið andvígur Samfylkingunni, stóra stjórnarflokknum, segja ríkisstjórn og spunaliðana hafa rangt fyrir sér á fréttastofa ríkisins erfitt með að „átta sig“. Harðari verður gagnrýnin á stjórnarherrana ekki þar á bæ!

Farið var að landslögum og alþjóðasamningi við brottvísun íraks hælisleitanda héðan til Noregs. Fréttastofa ríkisins tekur afstöðu með þeim sem telja að manninum hafi verið vísað í dauðann með endursendingu til Noregs. Fréttastofan á ekki erfitt með að „átta sig“ þegar málefni hælisleitenda er á döfinni.