8.9.2012 22:50

Laugardagur 08. 09. 12

Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, skýrði frá því dag að hún ætlaði að hætta varaformennskunni og hverfa af þingi við kosningar vorið 2013. Ólöf hefur reynst vandaður þingmaður og hefur verið mikill fengur að henni í forystusveit Sjálfstæðisflokksins. Hennar bíður enn varðstaða gegn hinni ömurlegu ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Á landsfundi fyrir kosningarnar verður nýr varaformaður valinn.

Það er fráleitur boðskapur sem ríkisfréttastofan flytur af þessu tilefni: „Ólöf er önnur konan sem tilkynnt er um að muni segja skilið við forystusveit Sjálfstæðisflokksins á innan við viku,“ sagði á ruv.is. Takið eftir orðalaginu „tilkynnt er um“. Þarna er eins og eitthvað æðra yfirvald hafi ýtt Ólöfu til hliðar þegar augljóst er að persónulegar ástæður eru að baki ákvörðun hennar og hún mun sitja þar til nýr hefur verið kjörinn, að öllum líkindum kona. Hin konan er Ragnheiður Elín Árnadóttir þingflokksformaður sem vék ófús úr fomannssætinu en án mótatkvæða var Illugi Gunnarsson valinn í hennar stað.

Hvers vegna kýs ríkisfjölmiðillinn að setja þetta fram á þennan hátt? Til að sverta hlut Sjálfstæðisflokksins í jafnréttismálum. Ríkisfjölmiðillinn kynnir málið eins og hann telur að falli að hagsmunum stjórnarflokkanna. Þetta sýnir hvernig ríkisfréttastofan mun haga sér komandi mánuði vaxandi stjórnmálaátaka.