Laugardagur 15. 09. 12
Haustveðrið í Fljótshlíðinni er einstaklega gott og fallegt í dag. Nágrannar mínir smöluðu heimalandið og ráku dágóðan hóp í réttina. Hér í túninu hjá mér var stygg ær með þrjú lömb. Kom í ljós að ég á hana og er hún því af forystukyni úr Fljótsdal. Hún var tvílemb síðast þegar ég vissi. Flækingslamb hefur laðast að henni og hún ekki hrakið það frá sér.
Kindur hér um slóðir hafa ekki mátt þola neitt veður á borð við ofsaveðrið fyrir norðan. Glöggur maður nefndi við mig að veðrið hefði verið svo gott hér á landi undanfarin ár að sauðkindin hefði glatað hæfileikanum til að greina óveður í aðsigi og forða sér. Sé svo hlýtur reynsla undanfarinna daga að hafa vakið eðlislægt viðvörunarkerfi.
Hér við Eyjafjallajökul kom öskufallið sauðkindinni í opna skjöldu en hún lagaði sig fljótt að því og sagan um Fjalladrottninguna mína sem sneri úr óbyggðum og gekk tugi kílómetra á heimaslóð þegar hún hafði fengið nóg af öskunni er til marks um það. Þegar hún taldi hættuna liðna hjá hljóp hún til fjalla og héldu henni engin bönd þar til hún var felld vegna dýraverndunarsjónarmiða.