21.9.2012 22:05

Föstudagur 21. 09. 12

Varðberg og  Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt (RNH) efndu í dag til hádegisfundar í Háskóla Íslands. Norski sagnfræðiprófessorinn Øystein Sørensen ræddi um alræðishugarfar fjöldamorðingjans Anders Behrings Breiviks. Frásögn og greining prófessorsins var næsta yfirþyrmandi enda óhugnanlegt að kynnast hugarfarinu að baki fjöldamorðunum sem Breivik drýgði 22. júlí 2011.

Prófessorinn sagði að erfitt væri að setja Breivik í einhvern þekktan flokk öfgamanna, mætti kalla hann ný-fasista en í raun væri helst að finna stjórnkerfi eins og hann vildi skapa með því að líta til Írans og íslam-ríkisins sem þar hefði verið stofnað af Kohmeini á níunda áratugnum.

Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnlagaráðsmaður segir í bloggi á dv.is í tilefni af orðum mínum hér á síðunni í gær að ég eigi að lesa útleggingar seinni tíma manna á því sem sagt var um endurskoðun stjórnarskrárinnar á fimmta áratugnum sjálfur hafi hann til dæmis vitnað í Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing og sagt svo að dæmi sér tekið: „Í stjórnarsáttmála nýsköpunarstjórnarinnar, sem tók við völdum haustið 1944, var róttækum breytingum á stjórnarskrá til að mynda lofað „eigi síðar en síðari hluta næsta vetrar““

Á því er mikill munur að lofa „róttækum breytingum“ á stjórnarskrá eða kasta henni fyrir róða eins og Eiríkur Bergmann og félagar hans í stjórnlagaráði hafa gert. Getur Eiríkur Bergmann bent á einhvern fyrri tíðar mann sem lagði til á fimmta eða sjötta áratugnum að lýðveldisstjórnarskránni yrði kastað fyrir róða?

Ég veit að menn hafa rætt breytingar á stjórnarskránni og samið tillögur um þær. Hins vegar er það ekki fyrr en nú sem látið er eins og kasta eigi lýðveldisstjórnarskránni þótt um 95% þjóðarinnar hafi samþykkt hana á sínum tíma.

Þetta virðingarleysi er jafn ólíklegt til að leiða til breytinga á stjórnarskránni eins og hitt að halda Sjálfstæðisflokknum frá endurskoðunarstarfinu en krefjast þess jafnframt af honum að hann samþykki það sem öðrum dettur í hug og ræði málið ekki á alþingi. Skoðanakúgun af þessu tagi á aldrei rétt á sér og síst af öllu þegar endurskoðun stjórnarskrár er til umræðu.