2.9.2012 22:05

Sunnudagur 02. 09. 12

Í dag héldu Rut og Richard Simm tónleika í Hlöðunni að Kvoslæk í Fljótshlíð, fjölmenni hlýddi á leik þeirra í fögru verði. Var þeim vel fagnað.

Fréttastofa ríkisútvarpsins hélt í dag áfram að blanda mér í vandaræði Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra eftir að hann lenti undir öxi kærunefndar jafnréttismála. Ögmundur baðst undan þessum samanburði. Hann ber keim af einelti.

Á Stöð 2 tíunduðu fréttamenn nokkra ráðherra sem sættu neikvæðu áliti kærunefndar jafnréttismála áður en lögunum var breytt í núverandi horf þar sem nefndin kveður upp bindandi úrskurði. Hið einkennilega við þessi samanburðarfræði fréttastofu ríkisútvarpsins er að fréttamennirnir láta jafnan undir höfuð leggjast að nefna hinn ráðherrann sem er í nákvæmlega sömu stöðu og Ögmundur, sjálfa Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Þau hafa bæði brotið sömu lög, þau voru ekki í gildi 2004.  Í stað þess að nefna Jóhönnu til sögunnar er mitt nafn dregið inn í þetta mál í skjóli feministans Sóleyjar Tómasdóttur, borgarfulltrúa VG. Þetta er fréttamennska á lægsta plani.

Í kvöldfréttum sjónvarps ríkisins var í kvöld fyrst talað um þrjú þorskastríð og síðan leiðrétt í tvö. Hvaðan í ósköpunum kom sú leiðrétting? Fyrsta stríðið var vegna 12 mílnanna 1958, annað stríðið vegna 50 mílnanna 1972 og hið þriðja vegna 200 mílnanna 1975.

Eru því engin takmörk sett lengur hvað ræður ferðinni á fréttastofu ríkisútvarpsins? Einelti og þekkingarleysi á meginþáttum í samtímasögunni? Eða lítur fréttastofan á það sem hlutverk sitt að umskrifa söguna?