22.9.2012 22:41

Laugardagur 22. 09. 12

Í dag var smalað á svæðinu fyrir norðan Þríhyrning. Ég lét mér nægja að ganga að honum að sunnan.Veðrið var milt og gott, ekki eins mikil rigning og vænta mátti miðað við spá.

Sunnudagsblað Morgunblaðsins er í nýjum búningi í dag. Breytingunni er ætlað að létta yfirbragð blaðsins, mér sýnist léttleikinn meiri en höfðar til mín. Ég hallast að því að blöð eigi að verða efnismeiri og dýpri til að skapa sér sérstöðu og áhuga í keppni við netið og miðlana þar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, ætlar að bjóða sig fram í hinu gamla, trausta vígi flokks síns, á Norðausturlandi, í næstu þingkosningum. Það er skynsamlegt hjá honum. Hann keppir þar um fylgi við Steingrím J. Sigfússon, formann VG. Sögusagnir eru að vísu um að Steingrímur J. ætli að flytjast til Reykjavíkur – líklega til að sækja fylgi til ESB-elítunnar í eigin flokki.

Jóhanna Sigurðardóttir málar Samfylkinguna út í ESB-horn í samtali við Fréttablaðið í dag. Hún segir flokkinn ekki geta starfað með öðrum eftir kosningar en þeim sem vilji halda áfram ESB-viðræðunum. Þessi yfirlýsing Jóhönnu sýnir skammsýni hennar sem stjórnmálamanns en stafar þó ekki af henni heldur frekjunni og sundurlyndisfjandanum sem einkennir málflutning hennar. Hvenær skyldi þingmönnum Samfylkingarinnar verða nóg boðið? Skyldi enginn koma fram til prófkjörs í Samfylkingunni með þann boðskap að tími Jóhönnu sé liðinn?