Þriðjudagur 25. 09. 12.
Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði frá því í Kastljósi kvöldsins að Björn Valur Gíslason (VG), formaður fjárlaganefndar alþingis og nánasti samstarfsmaður Steingríms J. Sigfússonar, hefði setið með skýrsludrög ríkisendurskoðunar um umdeilt tölvukerfi ríkisins frá Skýrr á fundi fjárlaganefndar þingsins í dag þar sem saumað var að Sveini Arasyni ríkisendurskoðanda vegna skýrslunnar. Sveinn hafði hins vegar sagt að ríkisendurskoðun hefði aðeins afhent Gunnar Hall, fjársýslustjóra ríkisins, skýrsluna á óformlegan hátt. Þá ætlaði stofnunin að leita til lögreglu til að upplýsa leka á skýrslunni til Kastljóss.
Hvenær fékk Björn Valur skýrsluna í hendur?
Í þessu máli er eitt að upplýsa þingmenn um skýrsluna sem greinilega hefur verið gert með því að afhenda Birni Vali eintak af henni, annað er að bregðast við ábendingum í skýrslunni og athugasemdum um það sem betur má fara. Hafi niðurstaða um það legið fyrir í nóvember 2009 er spurning hvers vegna fjármálaráðuneytið fékk ekki vitneskju um málið til að bregðast við því sem ríkisendurskoðun varð áskynja.
Miðað við framgöngu Björns Vals Gíslasonar í fjölda mála sem hátt ber í stjórnmálunum er full ástæða til að taka öllu sem hann segir um ríkisendurskoðun og skýrslu hennar með fyrirvara. Hann hefur meiri vitneskju í þessu máli en hann vill vera láta í viðræðum við fréttastofu ríkisins og notar vitneskju sína til að beina umræðum í þann farveg sem hann telur sér og flokki sínum hagkvæmastan. Hvers vegna skyldu fréttamenn ekki velta fyrir sér hvernig Steingrímur J. Sigfússon stóð að þessum málum sem fjármálaráðherra?