11.9.2012 22:00

Þriðjudagur 11. 09. 12

Öryggisgæsla var meiri við þingsetningu í dag en nokkru sinni fyrr. Víggirðing lögreglunnar myndaði nógu stóran hring til að ekki væri unnt að kasta eggjum í þingmenn og aðra sem gengu á milli Dómkirkju og Alþingishússins. Í stað heiðursvarða í hátíðarbúningum voru lögreglumenn í óeirðaklæðnaði eða óeinkennisklæddir eins og öryggisverðir fyrirmenna í útlöndum. Þrátt fyrir gott veður létu fáir borgarar sjá sig á Austurvelli. Meiri athygli var vakin á því í fjölmiðlum að nokkrir þingmenn hefðu mótmælt athöfninni í Dómkirkjunni með því að hlusta á boðskap Siðmenntar sem lítur á sig sem keppinaut presta við þessa athöfn.

Sumir þingmenn minntust reynslunnar frá þingsetningunni 1. október 2011 með svo miklum ótta að þeir vildu ekki ganga til og frá Dómkirkju. Þeirra á meðal var Oddný Harðardóttir fjármálaráðherra eins og hér má sjá.

Á dögunum ræddi ég við Einar Á. E. Sæmundsen, fræðslufulltrúa þjóðgarðsins á Þingvöllum, í þætti mínum á ÍNN eins og sjá má hér. Hann hefur tekið þátt í verkefni um forna þingstaði sem nær til Noregs, Færeyja, Bretlandseyja og Íslands. Hann segir að þessa staði megi meðal annars finna með því að þar standi kirkja eða helgistaður skammt frá því sem menn komu saman til að setja og lesa lög. Athöfnin í Dómkirkjunni er hluti menningararfleiðar sem sameinar þjóðirnar við Norður-Atlantshaf. Það er svo sem eftir öðru að Siðmennt vilji gera lítið úr þessum þætti þingsetningarinnar, hitt er skrýtið að þingmenn taki þátt í því.

Ég skrifaði um ræðu Ólafs Ragnars á Evrópuvaktina eins og lesa má hér. Mér þykir skrýtið að svo virðist sem hvorki hann né nokkur annar forystumanna hafi í þinghúsinu vikið að ofviðrinu á Norðausturlandi og tjóninu sem það hefur valdið. Þar ríkir almannavarnaástand og mikil verðmæti í húfi.