Fimmtudagur 20. 09. 12
Til marks um vonlausa baráttu stjórnarflokkanna er að nú státa þeir sig af því að í dag hafi verið rædd á alþingi (141. löggjafarþingi) tillaga til þingsályktunar um um að skipa þriggja manna nefnd er rannsaki einkavæðingu og sölu hlutabréfa í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. og tengd málefni á árunum 1998–2003 um rannsókn á einkavæðingu bankanna. Tillaga þessi var áður lögð fram á 140. löggjafarþingi. Tillagan er að hluta byggð á þingsályktunartillögu sem Þórunn Sveinbjarnardóttir og þrettán aðrir þingmenn Samfylkingarinnar fluttu á 139. löggjafarþingi.
Sé þetta mál brýnt má spyrja: Hvers vegna hefur það ekki verið samþykkt? Tillagan hefur verið flutt á þremur þingum án þess að hljóta samþykki. Hvað veldur? Tillagan er einfaldlega flutt til að halda lífi í hatursáróðri í garð stjórnarandstöðuflokkanna og þó sérstaklega Halldórs Ásgrímssonar, framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar, og Davíðs Oddssonar, ritstjóra Morgunblaðsins. Von Samfylkingarinnar og vinstri-grænna er að bæta áróðursstöðu sína með tillögunni. Þingmennirnir vita að efni tillögunnar stangast á við heilbrigða skynsemi þar sem ríkisendurskoðun hefur þegar kannað umrætt álitaefni og gefið út skýrslu um það.
Eiríkur Bergmann Einarsson, sérfræðingur í ESB-málum við Háskólann á Bifröst og fulltrúi í stjórnlagaráði, sagði í ríkisrútvarpinu í dag að Íslendingum hefði verið heitið því við lýðveldisstofnun að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar færi fram. Hver lofaði þessu? Hvernig væri að stjórnlagaráðsliðinn skýrði það? Eiríkur Bergmann hermir loforð upp á látna menn án þess að færa nokkur haldbær rök fyrir fullyrðingum sínum. Hver hét því að skipt yrði um stjórnarskrá á Íslandi með heildarendurskoðun stjórnarskrár sem 95% þjóðarinnar samþykkti í atkvæðagreiðslu 1944?
Sé annar málflutningur stjórnlagaráðsmanna reistur á svipaðri rangfærslu og þeirri sem Eiríkur Bergmann kynnir í þessum orðum er full ástæða til að hvetja fólk til að fella tillögu stjórnlagaráðs. Stjórnlagaráðsliðar veðja greinilega á að enginn rýni í orð þeirra. Þeir skipa í raun ekki annan sess en hver önnur nefnd á vegum alþingis eða ríkisstjórnarinnar. Að fordæmi fjölmargra slíkra nefnda ættu þeir sem sátu í þessari að halda sér á mottunni og leyfa öðrum að dæma um álitið. Hinn annarlegi tilgangur stjórnlagaráðsliða birtist ekki aðeins í orðum Eiríks Bergmanns heldur einnig á opinberum fundum í Iðnó. Þar boðar þetta fólk meðal annars að því hafi tekist að finna orðalag gegn spillingu sem útiloki hana um aldur og ævi. Hvers vegna slær það ekki í gegn í Nígeríu? Eða Rússlandi?