Miðvikudagur 05. 09. 12
„Á maður sem sagt að trúa því að Björn Bjarnason telji nú á tímum efnahagsþrenginga og deilna um leiðir að það sem besta sem stjórnarandstaðan geti gert sé að „berja á ríkisstjórninni“?“ þannig spyr bloggarinn og ESB-aðildarsinninn Magnús Helgi Björgvinsson á vefsíðu sinni í tilefni af því sem ég skrifaði hér á síðu mína í gær.
Svar mitt við þessari spurningu er einfalt: Já. Ég tel að því aðeins takist að losna úr efnahagsþrengingunum ef þessi stjórn fer frá völdum.
Raunar yrðu þung högg af hálfu stjórnarandstöðunnar mun öflugri leið til að takast á við þennan vanda en ESB-brölt ríkisstjórnarinnar eða sundrungariðja ríkisstjórnarinnar í stjórnarskrármálinu.
Magnús Helgi segir einnig: „Hefði einhvern veginn haldið að það væri heldur að leita samstarfs við stjórnarflokkana um þau mál sem Sjálfstæðisflokkurinn teldi til framfara. Og finnst mönnum málþófið sem Ragnheiður Elín stóð fyrir hafi hjálpað Íslandi til frambúðar?“
Hvers vegna gerir Magnús Helgi ekki þá kröfu til stjórnarflokkanna að þeir leiti samstarfs við stjórnarandstöðunna? Þannig hefur til dæmis alltaf verið staðið að endurskoðun íslensku stjórnarskrárinnar nema þegar deilan hefur snúist um kjördæmamál. Hvers vegna hefur ríkisstjórnin kosið átök um sjálfa stjórnarskrána? Jóhanna Sigurðardóttir vill alls ekki að samið sé við Sjálfstæðisflokkinn um málið.
Málþóf er hluti af starfi alþingismanna lögum samkvæmt. Leiðin til að komast hjá því er að ríkisstjórn sýni minnihluta á þingi tillitssemi. Ávallt eru einstök mál á dagskrá sem valda spennu og geta leitt til málþófs. Að stjórnarflokkar haldi þannig á málum að um sífellt málþóf er að ræða er einstakt og aðeins unnt að rekja til stjórnarhátta Jóhönnu Sigurðardóttur sem beitir aðferðum krossaprófs til að knýja fram lyktir mála að sögn heimildarmanna Morgunblaðsins.
Verði Illugi Gunnarsson stjórnarflokkunum leiðitamur sem þingflokksformaður sjálfstæðismanna er það ekki fagnaðarefni og Sjálfstæðisflokknum ekki til framdráttar.