28.9.2012 22:25

Föstudagur 28. 09. 12

Í dag hófst hér í Reykjavík þriggja daga námskeið í qi gong með dr. Yang, fæddum í Tævan 1946, búsettum í Bandaríkjunum frá 1974. Hann stofnaði eigin miðstöð kínverskra bardagalista í Boston 1982 en heldur nú úti námskeiðum í fjöllum Kaliforníu.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tilkynnti í dag að hún gefi ekki kost á sér í komandi þingkosningum. Það eru veruleg pólitísk tíðindi. Hún hefur notið mikils trúnaðar innan Sjálfstæðisflokksins og vinsælda sem ná út fyrir hin hefðbundnu flokksbönd. Þá lagði hún sig fram um að túlka sjónarmið þeirra sem vilja leiða ESB-aðildarviðræðurnar til lykta. Skarð hennar verður vandfyllt.

Þegar Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að hún yrði ekki í framboði að nýju tók fréttastofa ríkisútvarpsins mikla syrpu um að konur ættu undir högg að sækja í Sjálfstæðisflokknum. Þegar Jóhanna Sigurðardóttir tilkynnir brottför sína úr pólitíkinni verður ekkert sambærilegt uppnám í Efstaleiti vegna hlutar kvenna í Samfylkingunni. Hvað veldur? Neikvæða frétta-talið um Sjálfstæðisflokkinn mátti öðrum þræði rekja til viðleitni fréttastofu ríkisins til að draga úr gagnrýni á ráðherra vegna brota þeirra á jafnréttislöggjöfinni.

Ég skrifaði um nýjustu árásir Björns Vals Gíslasonar, formanns fjárlaganefndar, á ríkisendurskoðanda og ríkisendurskoðun á Evrópuvaktina eins og lesa má hér. Þetta upphlaup þingmannsins er með miklum ólíkindum. Meira hlýtur að búa að baki en deila um birtingu á skýrslu sem breytir í raun engu til eða frá og á rætur að rekja til ársins 2004 og reiðikastanna sem Jóhanna Sigurðardóttir tók þegar hún sat í stjórnarandstöðu. Árið 2004 gat hún ekki á heilli sér tekið vegna fjölmiðlamálsins. Hefði hugur fylgt máli hefði Jóhanna átt að beita sér fyrir frágangi þessarar skýrslu eftir að hún varð ráðherra 2007, þremur árum eftir að beiðni um skýrsluna var send ríkisendurskoðun. Hún gerði það ekki og ekki heldur eftir að hún varð forsætisráðherra 1. febrúar 2009.

Margt bendir til að um samantekin ráð hafi verið hjá Birni Vali og Kastljósi að bregða upp svartri mynd af skýrslunni, ekki til þess í raun að fjalla um efni hennar heldur að koma höggi á ríkisendurskoðanda. Vinnubrögðin bera keim af einræðistilburðum í anda Steingríms J. Sigfússonar.