14.9.2012 23:20

Föstudagur 14. 09. 12

Í dag var þess minnst í Háskólanum í Reykjavík að 10 ár eru liðin frá því að lagakennsla hófst við skólann. Efnt var til málþings í skólanum um hvert stefnir í lagakennslu og kom prófessor frá Kaupmannahöfn og lýsti breytingum sem þar eru á döfinni. Námið verður verkefnamiðaðra og er að verulegu leyti reist á því að nemendur mynda hópa sem vinna að úrlausn verkefna.

Þá var efnt til pallborðsumræðna um lögfræði og siðfræði auk þess sem rætt var um stöðu laganáms hér á landi. Ég tók þátt í þessum umræðum. Róbert Spanó, forseti lagadeildar Háskóla Íslands, var einnig meðal þátttakenda og taldi hann það hafa skipt sköpum fyrir þá lagadeild að Háskólinn í Reykjavik hóf kennslu í lögfræði. Taldi hann deildina hafa gengið í endurnýjun lífdaga við samkeppnina og almennt hefði lagakennsla í landinu batnað.

Eins og við er að búast af ríkisstjórn sem reist er á ofurtrú á getu ríkisins liggur í loftinu að ríkisstjórnin vilji að hætt sé innheimtu skólagjalda í sjálfstæðu háskólunum og ríkissjóður standi alfarið undir kostnaði við rekstur þeirra. Þetta er fráleit skoðun og mundi aðeins verða til þess að vega að öllu háskólastarfi.

Vandinn er að innan Háskóla Íslands hafa yfirvöld ekki haft þrek til að móta stefnu um innheimtu skólagjalda og lagt hana fyrir stjórnvöld.

Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, sat á dögunum fyrir svörum í Spegli ríkisútvarpsins og sagði að nú væri komið inn að beini við fjárhagslegt aðhald ríkisins og með lækkun útgjalda á fjárlögum til háskólastarfs.

Með pólitískan ofbeldismann á borð við Björn Val Gíslason (VG) sem formann fjárlaganefndar alþingis er full ástæða fyrir þá sem vilja standa vörð um menntun, rannsóknir og þróun á háskólastigi að vera á varðbergi. Björn Valur mun valta yfir fjármálaráðherra Samfylkingarinnar sýnist honum það þjóna hagsmunum hinnar þröngu klíku Steingríms J. innan VG. Með því að setja Björn Val í þessa stöðu vill Steingrímur J. fjarstýra fjármálaráðuneytinu og ráða framvindu ríkisfjármála. Hvorugur þeirra er málsvari öflugs háskólastarfs. Pólitísk valdasaga þeirra segir á hinn bóginn að þeir unni ekki neinum að blómstra á eigin forsendum. Sjálfstæðu háskólarnir eru því í sérstakri hættu.