Fimmtudagur 06. 09. 12
Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, flutti 50 mínútna ræðu til stuðnings Barack Obama á flokksþingi demókrata í gærkvöldi. Ræðan var mögnuð og sterk fyrir forsetann og einkennist af því að Clinton tekur helstu fullyrðingar repúblíkana gegn Obama vegur þær og metur áður en hann leitast við að jarða þær eða gera andstæðinginn ótrúverðugan. Flokksþingin einkennast af því að fyrir kjósendur eru lagðar tvær leiðir og tekist á um þær.
Línurnar eru skýrar en sá mun vinna sem nær best inn á miðjuna, fær þá kjósendur til fylgis við sig sem flakka á milli flokkanna. Þar er höfðað til hópa. Mikil hræðsla greip um sig meðal demókrata þegar það var blásið út að orðin „Guð“ og „Jerúsalem“ væru ekki í kosningaályktuninni. Obama beitti sér fyrir því að þetta yrði leiðrétt með atkvæðagreiðslu á þinginu sjálfu og þurfti forseti þess að endurtaka hana þrisvar áður en hann úrskurðaði að tveir þriðju hefðu samþykkt að setja orðin í hana.
Michelle Obama forsetafrú flutti frábæra ræðu og höfðaði þar sterkt til einstæðra mæðra en konur hafa frekar hallast að Obama en Romney. Obamamenn hafa mestar áhyggjur af könnunum sem sýna að fólk sem kaus hann 2008 hefur ekki áhuga á kosningunum núna. Baráttan snýst um að virkja þetta fólk. Forsetinn flytur ræðu í kvöld. Álitsgjafar segja að hann verði að slá í gegn ef hann ætli að sigra.
Ég hef ekki orðið var við að íslenskir stjórnmálamenn eða fjölmiðlamenn hafi tekið til umræðu mál sem sagt er frá á Evrópuvaktinni og sýnir að í Noregi og Svíþjóð telja ýmsir að okrað hafi verið á íslenskum skattgreiðendum með neyðarlánum 2009. Hér kemur líklega engum á óvart að íslensku samningamennirnir undir pólitískri forystu Steingríms J. Sigfússonar hafi ekki staðið fast á rétti Íslendinga auk þess samdi Steingrímur J. við Kristinu Halvorsen, flokkssystur sína í Noregi. Hún krafðist nokkurra milljarða í þóknun og Steingrímur J. samþykkti kröfuna.