Sunnudagur 30. 09. 12
Í dag lauk qi gong námskeiðinu hjá dr. Yang, það stóð að nýju í sex tíma í dag eins og í gær. Þriggja daga törn með 15 tíma fræðslu um qi gong er dágóður skammtur en við sem tókum þátt eru margs vísari, ekki aðeins um qi gong heldur margt sem snertir kínverska menningu og áhrif hennar.
Það verður spennandi að sjá hvaða áhrif koma dr. Yangs mun hafa innan hóps okkar sem stundum qi gong undir merkjum Aflsins, félags qi gong iðkenda. Við höfum reist æfingakerfi okkar á grunni frá Gunnari Eyjólfssyni leikara. Líklegt er að áhrifa frá dr. Yang muni gæta í útfærslu á þeim grunni. Innan qi gong skipta æfingarnar þúsundum. Meginatriði er að tryggja orkuflæði og jafnvægi í líkamanum þar sem litið er til fimm höfuðlíffæra: Nýrna, lifrar, milta, hjarta og lungna.