29.9.2012 19:15

Laugardagur 29. 09. 12

Í dag var ég í sex klukkustundir á qi gong námkeiði hjá Dr. Yang hér í Reykjavík.

Dr. Yang Jwing-Ming er fæddur á Tævan árið 1946. Fimmtán ára að aldri tók hann að æfa Kung Fu bardagalist og stundaði hana í 13 ár (1961 til 1974) undir leiðsögn meistara Cheng. Hann varð sérfróður í þeirri tegund bardagalistarinnar sem kennd er við hvíta trönu, það er fuglinn trönu. Bæði er barist með berum höndum og með alls konar vopnum. Hann lærði einnig qi gong undir leiðsögn sama meistara.

Þegar hann var 16 ára tók hann að læra Tajiquan undir leiðsögn meistarans Kao Tao, og síðan með öðrum meisturum.

Hann stundaði nám í eðlisfræði í háskóla frá 18 ára aldri og lagði einnig stund á Shaolin-bardagalistina og varð að lokum aðstoðarkennari meistara síns Lí. Hann útskrifaðist með meistaragráðu í eðlisfræði frá háskóla á Tævan 1971 og hóf að kenna eðlisfræði í flughernum á Tævan á meðan hann gegndi þar herþjónustu.

Dr. Yang fluttist til Bandaríkjanna árið 1974 og hóf nám í vélaverkfræði við Purdue-háskóla og þar hóf hann jafnframt að kenna Kung Fu. Hann lauk doktorsprófi í vélaverkfræði frá Purdue-háskóla árið 1978.

Árið 1980 hóf hann störf hjá Texas Instruments í Houston í Bandaríkjunum. Þar stofnaði hann Shaolin Kung Fu skóla Yangs en fluttist síðan til Boston árið 1982 og stofnaði þar Yang‘s Martial Arts Academy (YMAA) 1. október 1982 eða fyrir réttum 30 árum. Frá 1984 hefur hann helgað sig bardagalistinni og síðan qi gong.

Hann hefur nú flust frá Boston til Kaliforníu þar sem hann hefur komið á fót miðstöð til að kenna Kung Fu sem hann segir að taki mörg ár að læra og allt lífið að fullkomna. Hann býður nú 10 ára nám í miðstöð sinni í fjöllum Kaliforníu sem tók til starfa árið 2008.

Dr. Yang hefur ritað fjölda bóka og gefið út mikið magn mynddiska. Hann hefur lagt sig fram um að kynna Vesturlandabúum gömul kínversk rit um bardagalistir og qi gong.