Þriðjudagur 04. 09. 12
Í greinaflokki sem ég ritaði á Evrópuvaktina í sumar um makríldeiluna vek ég máls á þeirri kenningu að Norðmenn sýni hörku í makríldeilunni af því að það komi sér vel fyrir stjórnmála- og embættismannakerfi landsins að Íslendingum sé haldið fjarri ESB-aðild. Kæmi til hennar yrði það til að kynda undir áhugamönnum um ESB-aðild Noregs en þeir ganga nú með veggjum og mega sín einskis í stjórnmálaumræðum. Greinaflokkinn má einnig lesa hér á síðunni.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra gagnrýndi Norðmenn harkalega eftir ríkisstjórnarfund í dag og sagðist undrast hörku þeirra í okkar garð. Steingrímur J. Sigfússon gaf til kynna að Norðmenn hefðu ráðið mestu um að ekkert gerðist á fundinum í London í gær. Hann sagði hins vegar ekki á hvern hátt hann sjálfur hefði verið tilbúinn að hreyfa sig.
Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, er í hópi þeirra háskólamanna sem rétta Jóhönnu Sigurðardóttur hjálparhönd þegar í óefni er komið. Nú gerir hann það með því að ráðast á Ögmund Jónasson með þá vitleysu á vörunum að ráðherrar hafi aldrei sagt frá bókunum í ríkisstjórn. Hér í þessari frétt á Evrópuvaktinni eru nefnd nokkur dæmi um bókanir ráðherra sem vöktu mikla athygli og umræður.
Staðan á stjórnarheimilinu versnar jafnt og þétt engu að síður aukast vinsældir hennar í könnunum, nú styðja hana 34%. Í sömu Gallupkönnun kemur fram að fylgi Sjálfstæðisflokksins dalar. Hið undarlega er að þingmönnum flokksins tekst ekki að ná þeim vopnum sem þeim eru rétt á hverjum degi til að berja á ríkisstjórninni. Þá var kjörinn sérstakur varaformaður flokksins síðla síðasta vetrar með það sem höfuðverkefni að blása lífi í starf hans. Skyldi nýr þingflokksformaður hleypa nýju lífi í stjórnmálabaráttu flokksins? Ragnheiður Elín átti góða spretti og lét ekki stjórnarsinna vaða yfir sig sem þingflokksformann.