31.12.1999 0:00

Föstudagur 31.12.1999

Klukkan 10.30 var ríkisráðsfundur á Bessastöðum, þar sem Finnur Ingólfsson sagði formlega af sér sem ráðherra og Valgerður Sverrisdóttir tók við starfi iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Klukkan 14.00 vorum við Rut við hátíðlega athöfn í Bláfjallasal í húsakynnum RÚV við Efstaleiti, þar sem Sigurður Pálsson skáld og Ólafur Gunnarsson fengu verðlaun úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins. Klukkan 15.00 var ég kominn í húsakynni sjónvarpsstöðvarinnar Skjáreinn og í áramótaþátt Egils Helgasonar með þeim Siv Friðleifsdóttur og Össuri Skarphéðinssyni. Klukkan 19.00 fórum við Rut í Perluna, þar sem efnt var til fagnaðar í tilefni af því, að um áramótin varð Reykjavík ein af níu menningarborgum Evrópu. Var þetta skemmtileg og vel heppnuð kvöldstund, sem hófst með söng kórsins Radda Evrópu undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur en Björk söng tvö lög með kórnum, áður en hún hvarf af vettvangi. Síðar um kvöldið söng Kristján Jóhannsson þrjú lög með miklum glæsibrag, þannig að við áttum þess kost, sem þarna vorum að heyra á sama kvöldi þessa tvo heimsþekktu íslensku listamenn koma fram. Hefur það ekki gerst áður, þannig að einnig í þessu tilliti var stundin í Perlunni söguleg. Ég var meðal þeirra, sem fluttu ávarp í veislunni. Sumir voru aðeins milli 19.00 og 20.00, margir fóru um 11.30 en við vorum hópi þeirra, sem dvöldumst Perlunni fram yfir miðnætti. Í kvörtunardálkum blaða og spjallþáttum útvarpsstöðva voru menn að mikla fyrir sér, að til þessa kvöldfagnaðar væri efnt, þótti ýmsum greinilega í of mikið ráðist. Þegar fylgst er með því í sjónvarpi, hvernig aðrar þjóðir fögnuðu áramótunum, má segja, að við Íslendingar höfum næsta lítið gert af opinberri hálfu til hátíðarbrigða. Hér er að vísu almennara en annars staðar, að hver og einn sendir flugelda á loft á gamlárskvöld. Í öðrum löndum virðast það ferkar vera yfirvöld, sem standa beinlínis fyrir slíkum skrautsýningum. Að þessu sinni var líklega mest um dýrðir í London, þar sem hin nýja Þúsaldarhöll var tekin í notkun með glæsilegri sýningu. Perluhátíðin jafnaðist ekki á við það, sem gerðist í Þúsaldarhöllinni, hún var skemmtileg eingu að síður.