9.12.1999 0:00

Fimmtudagur 9.12.1999

Klukkan 14.00 komum við saman í Ráðherrabústaðnum Davíð Oddsson forsætisráðherra, Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra, Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og ég ásamt Gísla Gunnarssyni, forystumanni í Sveitarfélaginu Skagafirði, og rituðum undir samning um Hestamiðstöð Íslands. Þarna voru einnig forystumenn hestamanna og þingmenn úr Norðurlandskjördæmi vestra ásamt fjölda blaðamanna. Klukkan 17.30 fórum við í Gerðarsafn í Kópavogi, þar sem sýningin Lífshlaup var opnuð með miklum glæsibrag en á henni er að finna málverk úr safni nágranna minna hér í Háuhlíðinni, þeirra Ingibjargar og Þovaldar heitins í Síld og fisk. Tek ég undir með Braga Ásgeirssyni, sem segir í Morgunblaðinu í dag eitthvað á þá leið að margir eigi eftir að verða hrifnir og undrandi yfir þeim glæsilegu verkum, sem þarna er að sjá.