Fimmtudagur, 02. 02. 06.
Fréttir bárust af fundum Geirs H. Haarde utanríkisráðherra í Washington með Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra, og Nick Burns, aðstoðarutanríkisráðherra, auk þess sem hann fór í varnarmálaráðuneytið. Þess er að vænta, að nú sjái fyrir endann á viðræðum ríkjanna um varnarmál og vissulega tími til þess kominn. Eins og fram kom í fréttum sjónvarps í kvöld er Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, í íslensku sendinefndinni, sem gefur til kynna, eins og utanríkisráðherra sagði, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið og landhelgisgæslan séu tekin til við að velta fyrir sér verkefnum, ef um það yrði til dæmis samið, að Íslendingar tækju að sér aukna ábyrgð á leit og björgun, sem hvílt hefur á þyrlusveit varnarliðsins.
Birt var niðurstaða Gallup-könnunar í RÚV í dag, sem sýndi 55% (9 fulltrúar) fylgi við Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík. Samfylking með 30% (5), vinstri/grænir 8,5% (1), framsókn 4% (0) og frjáslyndir 2% (0).
Þessi könnun er gerð á sama tíma og framsóknarmenn voru að berjast í prófkjöri með töluverðum auglýsingum og verulegri umræðu í fjölmiðlum. Þeir voru ánægðir með þátttökuna í prófkjörinu, en könnunin sýnir, að þeir eiga enn nokkuð eftir til að ná landi, ef þeir ætla að fá einn fulltrúa kjörinn. Frjálslyndir eru á sama róli og áður, þrátt fyrir að Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi þeirra, hafi lýst sig stórkostlegan sigurvegara yfir Norðlingaölduveitu.
Á landsvísu er Sjálfstæðisflokkurinn með 43% + 1 frá síðustu Gallup-könnun. Samfylking með 27%, vinstri/grænir 18%, báðir óbreyttir frá síðustu Gallup-könnun. Framsóknarflokkurinn er með 10% -1% en frjálslyndir með 2%, og ættu þeir að fara að búa sig undir að fella tjöld sín.
Í borgarráði í dag bókuðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins svar sitt við minnisblaði innri endurskoðunar borgarinnar um kaup R-listans á Stjörnubíósreits, þar sem endurskoðunin leitast við að svara gagnrýni sjálfstæðismanna á skýrslu endurskoðunarinnar um þessi kaup. Benda sjálfstæðismenn á, að það sé sama hvernig reiknað sé, R-listinn hafi látið borgina kaupa reitinn af Jóni Ólafssyni í Skífunni á yfirverði - sé yfirverðið á bilinu 26 til 50 milljónir króna, eftir því hvernig reiknað er.
R-listamenn bókuðu m.a.: „...snýst gagnrýni sjálfstæðismanna í Reykjavík fyrst og fremst um að þeir telja að keypt hafi verið af röngum aðila, kaupsýslumanni sem ekki er Sjálfstæðisflokknum þóknanlegur.“ Sjálfstæðismenn í borgarráði sögðu á móti, að meirihlutinn kysi „að beina sjónum sínum einungis að því hver átti umrædda lóð og hagnaðist þannig verulega í viðskiptum sínum við borgaryfirvöld sem í þessu máli, eins og mörgum öðrum, sýna algjört ábyrgðarleysi í fjármálum borgarinnar og ráðstöfun á skattfé Reykvíkinga. Það er aðalatriði þessa máls.“
Ég má til með að halda því til haga, að ýmsir starfsmenn og vinir Baugsmiðlanna, eins og Reynir Traustason, ritstjóri Mannlífs, virðast líta svo á, að það sé flóknara fyrir mig en aðra að fóta mig á því, að Þorsteinn Pálsson sé orðinn ritstjóri Fréttablaðsins. Virðast þeir telja, að ritstjóraskiptin eigi eftir að breyta einhverju um hugtakanotkun mína hér á þessari síðu minni, sem bráðum heldur upp á 11 ára afmæli sitt. Þótt hún sé eldri en Baugsmiðlarnir, er útbreiðslumunurinn slíkur, að það er eins og rætt sé um, að mús geti ógnað flóðhesti.
DV endurspeglar þetta í morgun undir fyrirsögn á ritstjórnarhorni undir fyrirsögninni: Ráðvilltur Björn um Baugsmiðla. Segir þar:
„Líkt og margir veit Björn ekki hvort hann er að koma eða fara vegna ráðningar Þorsteins. Benda má Birni á, og öðrum sem ekki skilja fjölmiðla (!), að rísi þeir ekki úr meinlokunni að fjölmiðill sé fyrst og síðast flokkspólitískt fyrirbæri munu augu þeirra aldrei opnast.“ Og DV segir einnig: „Björn Bjarnason. Ólíklegt að hann breyti þeirri skoðun sinni, né nokkurri annarri, að fjölmiðlar séu fyrst og síðast flokkspólitískt fyrirbæri.“
Ég viðurkenni fúslega að ég er ráðvilltur, þegar ég les þennan boðskap DV og botna raunar ekkert í því hvert blaðið er að fara með honum. Ráðning Þorsteins Pálssonar sem ritstjóra ruglar mig hins vegar ekkert í ríminu og óska ég honum velgengni.
Ef DV er að leita að einhverjum ráðvilltum vegna ráðningar Þorsteins, bendi ég ritstjórninni í vinsemd á Össur Skarphéðinsson, félaga minn í netheimum. Össur sagði á síðu sinni sama daginn og Guðmundur Magnússon var rekinn af Fréttablaðinu fyrir skoðanir sínar:
„Á skútunni (það er Fréttablaðinu) er líka fyrir skarpasti leiðarahöfundur sem skrifar í íslensk dagblöð í dag, Guðmundur Magnússon. Hann skrifar á köflum leiftrandi ritstjórnagreinar sem á góðum ögum minna á andríki Þjóðviljans á bestu stundum sínum - ekki síst af því analýsur hans á pólitíkinni eru oft hnífskarpar.
Guðmundur er hins vegar sjálfstæður penni, og hefur ekki hikað við að segja álit sitt þó það komi yfirmönnum hans varla vel, sbr. gagnrýninn leiðara nýlega um vonda málsvörn Gunnars Smára um ritstjórnarstefnu DV í kjölfar ísfirsku skandalfréttarinnar. Sú staðreynd, að Guðmundur gat birt slíkan leiðara gerði það hins vegar að verkum að ég trúði því loks að Fréttablaðið væri laust við áreiti af hálfu eigenda og æðstu yfirmanna 365-miðla.“
Já, Össur trúði því, að leiðari Guðmundar um Gunnar Smára sannaði sjálfstæði Fréttablaðsins gagnvart eigendum sínum. Hið gagnstæða lá fyrir á sama tíma og Össur flutti frelsi Fréttablaðsins lof - Guðmundur var rekinn vegna leiðarans! Spyrja má: Hvenær gerðist það síðast á flokkspólitísku, íslensku blaði, að leiðarahöfundur var rekinn vegna skoðana sinna?