Miðvikudagur 01. 02. 06.
Svaraði tveimur spurningum á alþingi í dag frá Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, Samfylkingu. Annars vegar um viðbrögð vegna væntanlegra olíuflutninga á sjó frá norðurslóðum og hins vegar um ráðstafanir til orkusparnaði í nýju varðskipi - en þær ráðstafanir eru gerðar í samráði við fyrirtækið Marorku.
Horfði á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar, ræða við Árna Mathiesen fjármálaráðherra í Kastljósi um skattamál, álver og fleira. Samfylkingarforystan virðist eiga mjög erfitt að ræða nokkurt mál efnislega á opinberum vettvangi, þau Íngibjörg Sólrún og Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður flokksins, slá um sig með einhverjum heimatilbúnum frösum, sem eiga líklega að setja viðmælandann út af laginu, nú var það hjá Ingibjörgu Sólrúnu að kynning fjármálaráðuneytisins á tölum til að skýra skattalækkanir væri eins og tilboð um sólarlandaferð! Endurtók hún þetta hvað eftir annað í samtalinu.
Glöggur lesandi síðu minnar sendi mér þetta eftir samtal þeirra Árna og Ingibjargar Sólrúnar:
„Að láta hana komast upp með þann moðreyk, að skattar hafi verið hækkaðir, er alger óþarfi. Hún hækkaði hins vegar skattaálögur á Reykvíkinga með hækkun útsvarsálagningarhlutfalls og fasteignagjöldin með lóðaskorti, sem leiddi til húsnæðisskorts og þar með hækkunar álagningargrunnsins. Hún er skaðræði skattborgarans. Hún barðist á móti lækkun tekjuskattsálagningar og afnámi eignarskatts. Að láta hana komast upp með það að ásaka Sjálfstæðisflokkinn um skattahækkanir vegna þess, að í hans stjórnartíð hefur orðið heimsmet í raunhækkun launa, nær engri átt.
Samfylkingin stundar hugtakabrengl til að rugla fólk í ríminu. Hún kallar athugun á þróun ráðstöfunartekna rannsókn á þróun skattbyrði. Hvernig skattkerfið sem slíkt hefur þróazt, fæst aðeins með því að skoða fastar launaupphæðir á mismunandi tímabilum. Það má líka spyrja Samfylkinguna að því, hvort hún sé að biðja um flatan skatt með þessu tali um hækkandi skattbyrði með hækkandi launum. Hvers vegna er formaðurinn ekki afhjúpaður frammi fyrir alþjóð?“
Fréttir í dag hafa snúist um breytingar á yfirstjórn Baugsmiðlanna, þegar Ari Edwald sest þar í forstjórastól og Þorsteinn Pálsson í stól ritstjóra Fréttablaðsins. Í útvarpinu í morgun kveinkaði Ari sér undan því, að menn notuðu orðið Baugsmiðlar og taldi það notendum til minnkunar. Enn og aftur lýsi ég undrun minni yfir því, að starfsmenn fyrirtækisins telji það móðgandi, að starfsstöð þeirra sé kennd við helsta eigandann. Ég veit ekki um neitt annað fyrirtæki, þar sem starfsmenn reiðast, ef minnt er á eigendur þess. Væri ekki nær að skýra ástæður reiðinnar fyrir fólki en veitast að þeim, sem velja þetta orð?
Skýrt var frá því, að Guðmundi Magnússyni hefði verið vikið af Fréttablaðinu, þar sem hann skrifaði leiðara, meinhorn um menn og málefni og annaðist aðsendar greinar. Guðmundur hefur ekki lýst ástæðum uppsagnarinnar og stjórnendur Baugsmiðlanna láta að sjálfsögðu ekki svo lítið að skýra ákvarðanir af þessum toga.
Hér ætla ég að birta brot úr tveimur nýlegum leiðurum Guðmundar, sem hafa líklega ekki glatt eigendur og höfuðfulltrúa þeirra, Gunnar Smára Egilsson.
Fréttablaðið 16. janúar 2006 í tilefni af frétt DV og dauða manns á Ísafirði.
Ritstjórnir fái erindisbréf.
„Hitt er einkennilegt sjónarmið hjá framkvæmdastjóra félagsins, Gunnari Smára Egilssyni, að yfirmenn á ritstjórnum eigi sjálfir að ákveða hvers konar fjölmiðil þeir reka. Eigendur og rekstrarstjórar fjölmiðla eiga ekki að geta firrt sig ábyrgð með slíku tali enda blasir við að það getur ekki verið heil brú í slíkum vinnubrögðum. Því aðeins er vit í reglunni um að eigendur og stjórnarmenn fjölmiðlafyrirtækja virði sjálfstæði ritstjórna sinna að þeir hafi markað meginstefnuna og þannig sé hægt að sækja þá til ábyrgðar ekkert síður en ritstjórnirnar ef út af bregður.
Það er truflandi fyrir skynsamlegar umræður um fjölmiðla að tala um þá sem "hálf opinberar stofnanir" og að ritstjórnirnar sæki umboð sitt til almennings eins og framkvæmdastjóri Dagsbrúnar gerði um helgina. Fjölmiðlafólk ætti ekki að setja sig á háan hest með slíku tali. Eitt er að starfa í þágu almennings, annað að sækja umboð sitt þangað. Hið síðarnefnda gildir um kjörna fulltrúa okkar, forsetann, alþingismenn og sveitarstjórnarmenn, en ekki um starfsfólk fjölmiðla frekar en annarra fyrirtækja í einkaeigu.
Það var ekki á almennu vitorði starfsmanna 365 miðla að stjórnarmenn fyrirtækisins mættu ekki hafa afskipti af ritstjórnunum. Umræddar reglur hafa ekki verið birtar starfsfólki. Mikilvægt er að það verði nú gert. Þá kemur væntanlega í ljós hvort reglan taki einnig til framkvæmdastjóra fyrirtækisins og markaðs- og auglýsingastjóra eins og eðlilegt hlýtur að teljast. “
Fréttablaðið 11. desember, 2005 í tilefni af hátíðartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og hlut forsetahjónanna.
Hringlar í skartgripum
„Það heyrast sums staðar efasemdaraddir um framgöngu forsetahjónanna en þær eru ekki háværar. Engu að síður er það eðlileg og réttmæt spurning hvort hjónin á Bessastöðum séu að stíga eða hafi nú þegar stigið skrefi of langt og hugsanlega skaðað forsetaembættið með áberandi þátttöku sinni og forystu um samkvæmislíf innanlands og utan sem í margra augum einkennist af hreinum hégóma, snobbi og tildri. Ein hlið þess máls er óhóflegur og ört vaxandi kostnaður forsetaembættisins við ferðalög og veislustand, en sú hlið er þó hreint aukaatriði miðað við það tjón sem fylgja mun minnkandi virðingu fyrir embættinu.“