Sunnudagur, 12. 02. 06.
Prófkjöri Samfylkingarinnar lauk með sigri Dags B. Eggertssonar, Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri lenti í öðru sæti, Stefán Jón Hafstein í því þriðja og Björk Vilhelmsdóttir hinu fjórða, allt fólk, sem á sæti í borgarstjórn núna undir merkjum R-listans, en þau Dagur og Björk voru ekki í Samfylkingarkvóta R-listans í síðustu kosningum, Björk kom þá sem fulltrúi vinstri/grænna og Dagur bauð sig fram á listann sem óháður. Í fjórum efstu sætum Samfylkingarinnar er því að finna einskonar smá-útgáfu af R-listanum, sem kallaður hefur verið minnst aðlaðandi pólitíska vörumerkið um þessar mundir, vegna þess hvernig hann skilur við Reykjavíkurborg, þar sem látið er reka á reiðanum og ekki tekið á neinu máli í því skyni að leiða það til lykta.
Um 8600 kusu í prófkjörinu þá tvo daga sem það stóð auk 700 utan kjörstaðar. Allir gátu greitt atkvæði, án tillits til þess hvort þeir lýstu yfir stuðningi við Samfylkinguna eða ekki - prófkjörið var haldið undir merkjum Samfylkingar og óháðra.
Í prófkjörsbaráttunni auglýsti Dagur B. Eggertsson meðal annars á þennan veg: „Prófkjör Samfylkingarinnar í dag og á morgun er opið öllum Reykvíkingum, óháð stétt og stöðu, flokkslínum, aldri og áhugamálum.“ Orðavalið lýsir því, hve prófkjörið var opið en af því mætti einnig ráða, að einhverjir flokkar efndu til prófkjörs fyrir fólk af ákveðinni stétt, á sérstökum aldri og með nánar skilgreind áhugamál, til dæmis bara frímerkjasafnara. Orðskrautið er dæmigert fyrir, hvernig Dagur nálgast viðfangsefni; sjálfsagður hlutur er settur fram eins og um einhver stórtíðindi sé að ræða.
Sótti í kvöld tónleika Kammersveitar Reykjavíkur á Myrkum músikdögum en þeir voru fjölsóttir í tónleikahúsinu Ými.