Laugardagur, 04. 02. 06.
Fréttamaður NFS hafði samband við mig í dag vegna ummæla Björgvins G. Sigurðssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, við NFS í gær þess efnis, að ég væri að leggja fram frumvarp til laga um leyniþjónustu, þar sem gert yrði ráð fyrir greiningardeild við embætti lögreglustjóra. Ég sagði, að ímyndunaraflið hefði greinilega leitt þingmanninn í gönur.
Ég veit raunar ekki til þess, að Björgvin G. hafi séð umrætt frumvarp eða greinargerðina með því. Lauslega hefur verið sagt frá málinu í fjölmiðlum en frumvarpið er ekki einu sinni komið til þingflokka ríkisstjórnarinnar.
Hundruð greina Björgvins G. um menntamál undanfarin ár benda raunar til þess, að þingmanninn skipti ekki höfuðmáli að kynna sér mál til hlítar, áður en hann fjallar um þau í fjölmiðlum. Honum virðist meira í mun að láta ljós sitt skína en að greina hluti og lýsa niðurstöðum með vísan til staðreynda - hann yrði líklega seint ráðinn til starfa í greiningardeild. Væri verið að stofna annars konar deild, kynni hann að verða ráðinn til að kveikja villuljós í fjölmiðlum - disinformation er gjarnan hluti af starfsemi njósnadeilda eða leyniþjónustu, en starfssviðið er utan landamæra viðkomandi ríkis.