Fimmtudagur, 16. 02. 06.
Ræddi við þá félaga á síðdegisútvarpi Bylgjunnar um vændismál og greiningardeild lögreglunnar. Sagði hið sama og áður, að ég skildi ekkert í því, hvers vegna það væri gert að stórpólitísku máli hér, hvort setja ætti í íslensk lög sænsk lagaákvæði gegn götuvændi og mansali í Svíþjóð. Sagði einnig, að teldi ég nauðsynlegt að stofna hér öryggislögreglu eða leyniþjónustu mundi ég flytja frumvarp þess efnis á alþingi.
Þá kom ljósmyndari frá Fréttablaðinu og tók af mér myndir vegna viðtals um Evrópumál, sem mun birtast einhvern daginn í blaðinu. Ég tek heilshugar undir með þeim, sem segja, að ræða þurfi Evrópumálin. Bergljót Davíðsdóttir ritaði leiðara í DV þriðjudaginn 14. febrúar undir fyrirsögninni: Kominn tími til vitrænnar umræðu um ESB.
Bergljót vill greinilega að Ísland gangi í ESB og segir, að hér hafi ríkt „hundsleg þögn“ um málið, hvað svo sem það nú þýðir. Þetta er ekki hið eina skrýtna í þessum leiðara, þar sem hún hefur eftir Jóni Baldvin Hannibalssyni, að Davíð Oddsson hafi verið eini andstæðingur ESB-aðildar. Hvernig væri, að Bergljót, áhugamaður um vitræna ESB-umræðu og Jón Baldvin sjálfur rifjuðu upp ræður Jóns Baldvins sem utanríkisráðherra á tíma EES-samningaviðræðna? Þá kom ESB-aðild alls ekki til greina að mati Jóns Baldvins.
Bergljót segir: „Aðild hefur lengi verið á stefnuskrá Samfylkingarinnar og nú er lag.“ Lesendur hljóta að spyrja Bergljótu: Aðild að hverju? Eitt er víst, ekki að Evrópusambandinu. Bergljót telur, að samningar Maltverja um veiðar smábáta við eyju sína vísi okkur áhyggjulausa leið inn í ESB. Þá telur hún, að í Noregi séu „uppi háværar raddir um inngöngu í Evrópusambandið.“ Það eru þó ekki nema nokkrir mánuðir síðan mynduð var ríkisstjórn í Noregi, sem ætlar ekki að sækja um ESB-aðild á þessu kjörtímabili.
Spyrja má: Hver hefur gagn af svona vitrænni umræðu?